Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ólíklegt að tíðni sjálfsvíga hér lækki mikið

Mynd: Rúv / Rúv
Tíðni sjálfsvíga á Íslandi hefur lítið breyst frá árinu 1911 þegar fyrst var farið að skrá tilfellin. Hér á landi taka 11-13 af hverjum hundrað þúsund íbúum líf sitt á ári hverju. Ný þunglyndislyf hafa ekki breytt þessari tíðni, opnun geðdeildar hafði heldur ekki áhrif. Engilbert Sigurðsson, yfirlæknir á geðsviði Landspítala, segir sjálfvígsforvarnir erfiðar og á ekki von á því að tíðnin lækki mikið á næstunni. Hann segir ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg á geðdeildum.

Ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir sjálfsvíg á geðdeild

Spegillinn ræddi við Engilbert um geðheilbrigðiskerfið og hvernig geðdeildir taka á móti fólki í sjálfsvígshugleiðingum. Hann segir sjálfsvíg á geðdeild fátíð og því miður ekki alltaf hægt að koma í veg fyrir þau. 

„Ef við horfum til síðustu ára þá er kannski tæplega eitt sjálfsvíg á geðdeildum á ári sem er þá kannski nálægt því að vera 2-3% sjálfsvíga sem verða á hverjum tíma. Það er náttúrulega afar sárt að það skuli gerast því þarna kemur veikasta fólkið til okkar en hins vegar er það staðreynd að það er ekki til sú geðdeild, það fangelsi eða sú einangrun þar sem er algerlega hægt að koma í veg fyrir að sumir nái að taka líf sitt, því miður.“

Við þetta bætast svo sjálfsvíg sem orðið hafa á öðrum deildum. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Við geðdeild Landspítalans.

Reiða sig á söfnunarfé frá einkaaðilum

Enn á eftir að stíga ákveðin skref í þá átt að gera geðdeildirnar á Landspítalanum við Hringbraut öruggari, sjálfsvígsheldar eins og það er stundum kallað. Það kostar um 150 milljónir að taka hverja deild í gegn, úrbætur hafa verið gerðar af tveimur deildum af fjórum, baðherbergjum til dæmis breytt. Á hinum deildunum er pottur brotinn, eldvarnir meira að segja í ólagi. „Bráðageðdeildin sem var opnuð fyrir nokkrum árum var að verulegu leyti fjármögnuð með söfnun Á allra vörum, úr þeirri söfnun komu margir tugir milljóna og það finnst mér frekar sérkennilegt að það þurfi söfnunarfé frá einkaaðilum til að gera nauðsynlegar umbætur á aðbúnaði og öryggi þeirra allra mest veiku hjá okkur. Á hverju einasta ári reynum við að fá fjármagn í þetta en það er því miður allt of lítið fé sem Landspítalinn hefur til úrbóta á húsnæði, það vantar mikið upp á.“ 

Innlit á korters fresti algengast

En hvernig eru þeir sem lagðir eru inn og metnir í mikilli sjálfsvígshættu vaktaðir? Eru þeir undir stöðugu eftirliti eða er bara litið inn á herbergi til þeirra við og við? Algengast er að fyrst sé setið yfir fólki og svo litið til þess á korters fresti. Eftirlitið er þó mismikið. „Það er allt frá því að viðkomandi getur ekki farið á klósett án þess að það sé fylgst með honum yfir í að hann þurfi bara að vera á deildinni,“ útskýrir Engilbert. 

Álag gerir fólki erfiðara fyrir að fylgja áætlunum

Bresk rannsókn sýndi að sjálfsvíg á stofnunum verða helst þegar áætlun um eftirlit er ekki fylgt svo sem vegna álags eða manneklu, þegar verkferlar eru ekki skýrir og þegar óreynt fólk er fengið til að sinna eftirlitinu. Engilbert viðurkennir að það hvernig gengur að framfylgja áætlun um eftirlit á Landspítalanum sé háð mönnun og álagi. 

„Mönnun er náttúrulega búin að vera erfið hér á Landspítalanum eins og landsmenn þekkja núna um nokkra hríð svo geta komið upp skyndileg veikindi á vöktum þannig að eitt og annað getur gert flóknara að mæta þessu en auðvitað á þetta að vera í forgangi og það er reynt.“

Hópurinn sem sinnir eftirlitinu er fjölbreyttur. „Það er alveg frá óreyndara fólki, oft sálfræðinemum sem eru að sækja sér reynslu, yfir í sjúkraliða með margra áratuga reynslu. Hjúkrunarfræðingar taka svo líka stundum þátt í yfirsetu.“

Helmingur íslenskra ungmenna hugsað um sjálfsvíg

Mynd með færslu
 Mynd: Sigrún Hermannsdóttir - RÚV

Þegar einhver kemur inn á bráðamóttöku vegna sjálfsvígshugsana reynir fagfólk að meta hversu mikil hættan er út frá gátlista. Það er þó einungis hægt að spá fyrir um hvort einhver tekur líf sitt á næstu þremur vikum með 3-4% vissu. „Þetta er mjög vítt róf, það að hafa einhverjar sjálfsvígshugsanir yfir í að hafa virkar hugmyndir og plön um að enda líf sitt. Við vitum það úr tveimur rannsóknum sem voru gerðar hér í upphafi aldarinnar að um helmingur íslenskra ungmenna á aldrinum 16 til 25 ára hefur hugsað um að enda líf sitt og af þeim hefur einn af hverjum tíu gert eitthvað til að skaða sig. Þetta er ofsalega algengt en það er talsvert minni hópur sem hefur gert þessar alvarlegu tilraunir sem við viljum koma í veg fyrir að verði að sjálfsvígi með því að leggja fólk inn. Við þurfum þarna að horfa á veikindaþáttinn eins og hann er við komu, er þetta alvarlegt þunglyndi eða geðrof, fléttast þarna inn annar vandi, félagslegur eða vímuefnavandi sem getur flækt stöðuna? Hreinlega það hvernig einstaklingurinn tjáir sig er eitthvað sem við verðum að taka mark á en geta okkar til að nýta þessar upplýsingar til þess að spá af einhverjum áreiðanleika um líkurnar á sjálfsvígi á næstu vikum. Það er hvergi góð forspá í því, hún er bara nokkur prósent.“

Vill ekki að geðdeildir verði fangelsi

Engilbert á ekki von á því að áreiðanleiki matsins batni á næstu árum. En hvernig á að bregðast við þessari óvissu? Engilbert segir að ef allir sem hafa áform væru lagðir inn og settir á sjálfsvígsgát í viku væri hætt við því að geðdeildir breyttust í hálfgerð fangelsi. Fólk með áform um að taka líf sitt forðist þá hugsanlega að leita sér aðstoðar á spítalanum. „Af því að það er svo þrúgandi þá að koma og vera jafnvel nauðungarvistaður, lagður inn gegn sínum vilja, hafður á sjálfsvígsgát og yfirsetu jafnvel dögum saman.“

Samráð í forgangi, aðstandendur mikilvægir

Mikil áhersla er lögð á samráð við skjólstæðinga þegar kemur að dvöl á geðdeild, nauðungarvistun er að sögn Engilberts algert neyðarúrræði. Hann segir að Ísland sé ásamt Bretlandi sér á báti að því leyti að hér sé nauðungarvistun sjaldnar beitt en í öðrum Evrópuríkjum og ekki notuð belti eða ólar. 

Stundum vill sárveikt fólk sem gert hefur alvarlega sjálfsvígstilraun fara heim strax næsta dag. Þá eru læknar í erfiðri stöðu. Yfirleitt er þá byrjað á því að fá náinn aðstandanda inn í samtalið. En er það raunhæft? Aðstandendur eru jú alls konar og kannski sjálfir í miklu tilfinningalegu uppnámi. Engilbert telur þetta raunhæfa leið, oft séu þetta fjölskyldusjúkdómar og stundum hafi sjúklingar ekki greint fjölskyldumeðlimum frá líðan sinni. Það sé þá gott að opna á samtal. En eru aðstandendur aldrei ósammála læknunum um mikilvægi innlagnar? 

„Það er algengara að aðstandendur séu mjög hræddir, leggist á árar með okkur með að viðkomandi þurfi lengri tíma. Sjá fram á að þurfa annars að sitja dag og nótt yfir hlutaðeigandi heima sem er ekki auðvelt til lengdar. Vissulega eru þó dæmi um að aðstandendur leggist mjög ákveðið á árarnar með þessum veika einstaklingi um að hann fái að fara heim eða sé ekki lagður inn og þá erum við í flókinni stöðu sem við þurfum þá kannski að ræða, kannski við góðan kollega, hvað sé skynsamlegt að gera,“ segir Engilbert. 

Það hvort læknir fellst á að senda sjúkling heim með aðstandenda fer svo að einhverju leyti eftir því hversu vel hann treystir honum.

Stundum er nauðungarvistun það eina í stöðunni, svo sem ef manneskjan er í geðrofsástandi, er enn með áform um sjálfsvíg eða afneitar því að vandinn sé alvarlegur. 

Segir eðlilegt að senda fólk í sjálfsvígshugleiðingum heim

Það hefur verið gagnrýnt að fólk sem kemur á bráðamóttöku með sjálfsvígshugsanir sé sent heim. Engilbert segir það eðlilegt. Þá sé gripið til annarra úrræða, fenginn tími hjá geðlækni eða sálfræðingi, manneskjan beðin að koma aftur á geðdeildina næsta dag í svokallaða bráðaeftirfylgd eða haft einhvers konar samráð við vini eða ættingja.

Heilsugæslan fyrsti viðkomustaður

Hann segir að það sé einfaldlega ekki hægt að leggja alla með sjálfsvígshugsanir inn eða alla sem vilja innlögn. Pláss geðdeildarinnar séu takmörkuð og mikilvægt að nýta þau sem best. Engilbert vill leggja áherslu á að efla fyrsta stigs þjónustu, heilsugæsluna. Hún verði fyrsti viðkomustaður fólks sem glímir við sjálfsvígshugsanir. „Sem getur svo sent áfram til geðdeildar þegar þörf er á. Ef allir koma á bráðamóttökuna sem hafa sjálfsvígshugsanir þá yfirfyllist hún bara af fólki og þeir sem hafa mesta þörf fyrir mat og innlögn týnast svolítið í því hafi.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engilbert vill að heilsugæslan verði efld og segir ekki ganga nógu hratt að fjölga sálfræðingum.

„Fólk getur verið mjög ósátt og ekki fyrirgefið“

En hversu oft skeikar læknunum? Er það algengt að fólk sé sent heim en fremji svo sjálfsvíg stuttu seinna? 

„Við getum ekki haft nákvæmar tölur um það en það er óhjákvæmilegt að það gerist stundum. Hitt sem gerist stundum og fólk getur verið mjög ósátt við og ekki fyrirgefið það er þegar einhver kemur og er kannski með sjálfsvígshugsanir en ekki virk áform, fer síðan en síðan verður eitthvað til þess að þessi áform verða áleitnari. Það getur verið vímuefnaneysla, eitthvað sem gerist í einkalífi einstaklingsins og áformin raungerast.“ 

„Stundum klikkar eitthvað hjá okkur“

Engilbert segir að eftirfylgnin sé ekki alltaf eins og best væri á kosið. „Fólk fylgir ekki endilega þeim plönum sem eru gerð og stundum klikkar eitthvað hjá okkur þegar á að ná í fólk, ef það á að hringja í það og bjóða því í einhverja hópa eða meðferð. Það er miserfitt að ná í fólk í síma í dag, eins og gengur. Það eru margir þættir í þessari keðju sem geta farið öðruvísi en maður vildi og það er alltaf hægt að gera betur.“

Afvötnun fyrsta skrefið

En hvað um þá sem glíma við geðrænan vanda og vímuefnavanda? Fá þeir rétta meðferð? Móðir drengs sem svipti sig lífi á geðdeild sjúkrahússins á Akureyri fyrir nokkrum árum gagnrýndi í Speglinum í ágúst að til hafi staðið að útskrifa hann af geðdeild og senda hann í afvötnun þegar rót vanda hans var geðræns eðlis. Engilbert segir að það sé flókið samband milli vímuefnavanda og geðræns vanda. „Þeir sem nota vímugjafa eru í aukinni hættu að fá þunglyndi, kvíða og geðrofseinkenni og þeir sem eru með þunglyndi, kvíða og geðrofseinkenni eru líklegri til að fara að nota vímugjafa. Þetta er svona hænan og eggið. Fyrsta skrefið þarf alltaf að vera að draga úr neyslu vímugjafa eða hætta til að sjá hvað stendur þá eftir. Auðvitað eigum við líka að efla þjónustuna við einstaklinga í fíknivanda. Við höfum gert það dálítið núna með aukinni meðvitund um skaðaminnkun en það þarf að gera betur. Það þarf líka að efla eftirfylgd og meðferð vegna ópíatafíknar á Vogi. Það er of lítið fjármagn sem fer í hana miðað við þarfirnar, þetta er endalaus glíma við ríkisvaldið um samninga og munaði ekki miklu á þessu ári að það færi alþjóðlegt útboð af stað um þessa þjónustu án þess að SÁÁ vissi af því. Það má víða gera betur og ég held það sé vilji til þess en það er ekki nóg að hafa viljann ef hann skilar sér ekki í fjárlögum.“

Há dánartíðni þrátt fyrir eftirfylgd

Íslensk rannsókn sem tók til áranna 2000 til 2004 sýndi að 10% þeirra sem lagðir voru inn eftir alvarlega sjálfsvígstilraun létust innan þriggja ára frá útskrift. Meirihluta þessa fólks, 80%, bauðst einhvers konar eftirfylgni. Í rannsókninni segir að það að dánartíðni sé há þrátt fyrir að hátt hlutfall fái eftirfylgd innan geðheilbrigðiskerfisins vekji spurningar um hvort meðferðarúrræði séu nógu árangursrík. Engilbert segir að geðdeildin hafi yfirleitt ekki burði til að fylgja fólki eftir í mörg ár eftir sjálfsvígstilraun, til þess þyrfti að stórefla göngudeildina. Geðlæknar eða sálfræðingar þurfi að taka við. 

Hann segir ljóst að það þurfi að bæta margt í þjónustu við fólk með geðraskanir. Kerfin tali ekki nógu vel saman; skólarnir, heilsugæslan, félagsþjónustan. Það sé unnið að því að samþætta þjónustuna og breyta verklagi en það taki tíma og kalli á fjármagn. Geðraskanir séu gífurlega algengar og því þurfi atvinnurekendur líka að styðja betur við starfsfólk sem veikist. 

Vill nýja geðdeild

Hann myndi vilja hafa fleiri og fjölbreyttari geðdeildir, bæta við nýrri geðdeild til að koma betur til móts við þarfir sjúklinga. Það sem hentar einhverjum sem gerði alvarlega tilraun að lífi sínu í djúpu þunglyndi eða geðrofi henti ekki endilega manneskju með persónuleikaröskun sem hefur endurtekið skaðað sig og hótar að halda því áfram. Þá séu þarfir ungs fólks og þeirra sem eldri eru ólíkar.

Ekki víst að sjálfsvígum fækki mikið 

En verður það að efla geðheilbrigðisþjónustuna til þess að fækka sjálfsvígum? „Já, hugsanlega,“ segir Engilbert og vísar til sænskrar rannsóknar sem sýndi fram á árangur af slíku. Hann segir árangurinn þó fyrst og fremst felast í því að bæta líðan fólks og lífsgæði, velferð fjölskyldna, ólíklegt sé að efling heilsugæslu verði til þess að sjálfsvígstíðni lækki verulega. 

„Vonandi myndi nýgengið minnka eitthvað við að efla kerfið en ég held það væri afar hæpið, horfandi á það hvernig það hefur verið afar svipað frá árinu 1911, þegar tölur voru fyrst teknar saman, að við myndum ná að minnka það um tugi prósenta. Því miður.“

Hann horfir til Bretlands en þar ná heimilislæknar oft að grípa snemma inn í vanda fólks. Ísland sé ríkara en Bretland ef miðað er við höfðatölu og við eigum ekki að vera eftirbátar þeirra, segir hann. Nú sé líka að draga úr þenslunni, því telur hann að ráðamenn ættu að geta varið fé í Landspítalann. 

Segir efndir stjórnvalda ganga of hægt

Geðheilbrigðismál eru í forgangi hjá ríkisstjórninni ef marka má stjórnarsáttmálann og í gildi er aðgerðaáætlun. Í lok árs þessa árs eiga börn og fullorðnir að geta fengið meðferð við algengum geðröskunum á fimm af hverjum tíu heilsugæslustöðvum. Þetta er ekki raunin. Í lok þessa árs verða heilsugæslusálfræðingarnir sem sinna fullorðnum þrír talsins á höfuðborgarsvæðinu. Engilbert segir að hvað þetta varðar hafi efndir stjórnvalda gengið of hægt. „Þetta þarf að ganga hraðar en hraðinn ræðst eins og alltaf af fjárlögum, við skulum bara sjá hvað gerist í þeim núna.“

Segir umfjöllun fjölmiðla misvandaða

Umræða og umfjöllun um sjálfsvíg getur ýtt undir sjálfsvigshugsanir hjá fólki og er vandmeðfarin að sögn Engilberts. Hann segir umfjöllun fjölmiðla um þau tilvik sem upp komu á geðdeild Landspítalans nýlega hafa verið misvandaða. „Ég verð bara að segja eins og er að við því miður fundum fyrir áhrifum sem erfitt er að flokka öðruvísi en sem smitáhrif á þessum vikum.“ Fjölmiðlar ættu að hans mati að fylgja ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðismála-stofnunarinnar um hvernig eigi að fjalla um sjálfsvíg, ættu til dæmis ekki að byrja fréttatíma á fréttum um sjálfsvíg. „En fjölmiðlar verða náttúrulega að ráða þessu sjálfir,“ bætir hann við. 

Hvetur þá sem glíma við sjálfsvígshugsanir til að leita sér hjálpar

Engilbert bendir þeim sem upplifa sjálfsvígshugsanir að leita til heimilislæknis, sálfræðings eða geðlæknis. Það geti verið frelsandi að ræða þessar hugsanir, hann vísar til dæmis til greina eftir Steindór Erlingsson, vísindasagnfræðings sem fjallað hefur opinskátt um hugsanir sínar. Þeir sem eru með áform um að enda líf sitt eigi ekki að hika við að leita á bráðamóttöku geðdeildar eða almennar bráðamóttökur. Loks má nefna hjálparsíma Rauða krossins, 1717.