Ólíklegt að Íslandi verði vísað úr keppni

20.05.2019 - 08:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri, segist vera gríðarlega ánægður með frammistöðu Hatara í ár og að atriðið sé eitt það besta sem hafi farið út fyrir Íslands hönd. Engin formleg athugasemd hafi borist frá EBU og telur hann það ólíklegt að Íslandi verði vísað úr keppni. 

Íslenski hópurinn sem tók þátt í Eurovision í Ísrael er lagður af stað aftur heim til Íslands. Hópurinn mætti á flugvöllinn í Tel Aviv í morgun og lenti ekki í neinum vandræðum. Klemens Hannigan, annar söngvari Hatara, var kallaður upp í kallkerfi flugvallarins í morgun. Erindið var þó aðeins að óska útskýringa á tilvist saumavélar í ferðatösku sem var merkt honum. 

Magnús Geir segir í samtali við Morgunútvarpið að í ljósi sögu Eurovision sé ólíklegt að afleiðingarnar verði alvarlegar. „Mér finnst það mjög ólíklegt, verð ég að segja. Það liggur alveg fyrir að það á ekki að nýta Eurovision í pólitískum tilgangi, það er i reglum keppninnar og Ísland hefur tekið þátt í yfir 30 ár og auðvitað leggjum við upp með að fara eftir reglum keppninnar, nú sem endranær. Þarna eru sérstakar aðstæður, þarna eru listamenn sem ákveða að gera þetta í hita leiksins en í gegnum tíðina, áratugasögu Eurovision þá hefur eitt og annað gerst. Fánum hefur verið veifað af ýmsu tagi og fleira þannig mér þykir það mjög ólíklegt að það verði einhver slík viðurlög. Líklegra að það verði kannski gerð formleg athugasemd við þetta. “

Hann segir að engin slík athugasemd hafi borist. „Mér þætti mjög óeðlilegt og undarlegt ef viðurlögin væru svona stórtæk.“

Hann segir að RÚV sé ekki ósátt við Hatara. „Það liggur alveg fyrir að þetta var ekki hluti af planinu hjá okkur. Við hins vegar erum alveg meðvituð um að þegar þjóðin valdi Hatara að þá auðvitað vitum við að við erum ekki að fara með sykurhúðað framlag og þarna eru listamenn sem liggur mikið á hjarta og það er jú eðli listarinnar að spyrja álitinna spurninga og velta upp nýjum flötum og þess háttar.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi