Ólíkar áherslur Íslands og BNA á fundum

03.09.2019 - 20:31
Mynd: Skjáskot / RÚV
Viðbúið er að Íslendingar og Bandaríkjamenn leggi misjafna áherslu á umræðuefni morgundagsins þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í opinbera heimsókn. Þetta segja fyrrverandi ráðherra og stjórnmálafræðingur. Viðbúið sé að Íslendingar leggi meiri áherslu á viðskipti en hermál en að því verði öfugt farið hjá Bandaríkjamönnum.

Viðskiptin mikilvæg fyrir Ísland en varnarmálin fyrir Bandaríkin

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, segir að pólitískar ástæður sem snúi bæði að viðskiptum og varnarmálum liggi að baki komu Pence til Íslands. Hann sagði fund ríkjanna um viðskipti augljóslega aðalatriðið af hálfu íslenskra stjórnvalda. Björn sagði að varnarmálahlutinn væri sennilega aðallega staðfesting á ferli sem hófst 2016 við að byggja upp flugskýli á Íslandi. „Það er mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn og Bandaríkjastjórn að sýna að það sé pólitískur stuðningur við þessar aðgerðir.“ Hann á þó ekki von á breytingum á samskiptum ríkjanna eða að Bandaríkjamenn líti á Keflavíkurflugvöll sem annað en viðdvalarflugvöll fremur en sem varanlegan dvalarstað fyrir hermenn.

Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur sagði að Íslendingar litu væntanlega helst til viðskiptamála vegna heimsóknarinnar. „Ég á hins vegar erfitt með að trúa því að óreyndu að Bandaríkin myndu leggja svona mikið upp úr tvíhliða viðskiptasambandi við smáríki eins og Ísland. Ég held að frá þeirra bæjardyrum séð séu varnarmálin mikilvægari.“ Hún sagðist telja mikilvægara fyrir Bandaríkin að sýna að Ísland sé útstöð varna Bandaríkjanna.

Björn sagðist telja langsótt að tilgangur fararinnar væri að byggja upp bækistöðvar fyrir Bandaríkin. Hann sagði Pence líka ræða viðskiptamál í ferðalagi sínu til nokkurra Evrópuríkja.

Varanleg dvöl eða tímabundin

Björn sagðist telja að Bandaríkjamenn ættu ekki nógu margar kafbátaleitarvélar til að staðsetja þær varanlega á Íslandi. Hann taldi líklegra að þær yrðu á Skotlandi og kæmu hingað tímabundið. Silja Bára sagði að hér væri nokkurn veginn varanleg viðvera þótt svo herdeildum væri skipt út fyrir aðrar í stað þess að þær væru hver og ein með varanlega viðveru. „Það er mjög lítið um ferðir rússneskra kafbáta og fáar flugvélar sem hafa komið hér um á síðustu árum. Til að byggja upp hérna held ég að það þyrftu að vera töluvert meiri beinar ógnir.“

Björn sagði líklegt að hermálin yrðu rædd á fundi Pence og Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. „En að þau fari að ræða einhverjar strategískar línur held ég að verði ekki gert. Varaforsetinn er að ég held enginn sérstakur herfræðingur.“ Hann sagði tilgang Bandaríkjamanna með ferðinni fyrst og fremst pólitískan, að staðfesta áhuga sinn á norðlægum slóðum.

Silja Bára setti vilja Pence til að lengja ferðalagið til að ná fundi forsætisráðherra í samhengi við nýleg samskipti Bandaríkjanna og Danmerkur. „Það kannski er líka til að bæta aðeins upp fyrir samskipti Trumps við forsætisráðherra Danmerkur í kringum Grænlandsfíaskóið, að sýna fram á að það sé áhugi á að eiga alvöruviðræður við leiðtoga á þessum slóðum.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi