Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ólík sýn á verkefni kostar Ísafjarðarbæ 12,5 milljónir

24.02.2020 - 14:30
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Kostnaður Ísafjarðarbæjar vegna starfsloka Guðmundar Gunnarssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, er 12,5 milljónir eða sem nemur 6 mánaða launum. Birgir Gunnarsson, nýráðinn bæjarstjóri, mun vinna 5 af þeim 6 mánuðum sem uppsagnarfrestur Guðmundar tekur til en laun Birgis eru 1,8 milljónir á mánuði með orlofi.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Sifjar Sigurðardóttur, starfandi bæjarstjóra, við fyrirspurn Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarfulltrúa Ísafjarðarlistans. Svarið var lagt fram á fundi bæjarráðs í dag.

Guðmundur lét nokkuð óvænt af störfum sem bæjarstjóri í lok síðasta mánaðar. Ástæðan var sögð vera ólík sýn á verkefni á vettvangi sveitarfélagsins. Töldu hlutaðeigandi að það væri sveitarfélaginu fyrir bestu að leiðir skildu, eins og það var orðað í yfirlýsingu frá Ísafjarðarbæ. 

Tæpum mánuði seinna birti Guðmundur svo færslu á Facebook þar sem hann greindi frá því að hann hefði ákveðið að flytja með fjölskyldu sína frá Ísafirði. Líðan þeirra hefði versnað eftir starfslokin, ýmsar sögur farið á flug um störf hans sem bæjarstjóri og ástæður brotthvarfs hans úr starfi. 

„Við höfum fundið fyrir gríðarlegum stuðningi. Meiri stuðningi en við gerðum okkur grein fyrir. En það er eins og ég segi að það kemur í ljós slagkraftur þeirra sem sannarlega halda um valdasprotana,“ sagði Guðmundur í samtali við fréttastofu.