Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólíðandi að ráðherra efist um styrki til bænda

07.11.2019 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Stjórn Framleiðnisjóðs Landbúnaðarins segir ólíðandi að landbúnaðarráðherra hafi sagt að úthlutanir úr sjóðnum væru skrautlegar. Ráðherrann segir sérstakt, að stór hluti af framlögum sjóðsins renni til stofnanna og félagasamtaka. Varaformaður Bændasamtakana hefur áhyggjur af því að það bitni á landbúnaðinum ef nýr Matvælasjóður verður stofnaður og önnur verkefni en sem tengist matvælum gleymist.

Landbúnaðarráðherra mælti fyrir nýju matvælafrumvarpi í vikunni þar sem er talað um að stofna nýjan Matvælasjóð og fella niður Framleiðnisjóðinn og AVS-rannsóknasjóð um aukið verðmæti sjávarfangs. Í umræðum um frumvarpið talar ráðherra meðal annars um að úthlutanir úr Framleiðnisjóði séu ærið skrautlegar og hann hafi grun um að þar sé ekki allt eins og menn ætluðu.

Vill að framlög renni til matvælaframleiðslu í meira mæli

Stjórn Framleiðnisjóðsins segir þessi orð fela í sér trúnaðarbrest. Elín Aradóttir formaður sjóðsins segir að stjórnin hafi ekki fengið kvartanir frá ráðuneytinu eða ríkisendurskoðun. „Það sem við erum ósátt við eru þessi ummæli sem vega að okkar fagmennsku. Það er ólíðandi að slíkt eigi sér stað órökstutt á hinu háa Alþingi,“ segir Elín.

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra hélt að framlög til sjóðsins rynnu meira til matvælaframleiðslu en raun ber vitni. „Mér þótti sérstakt að sjá hversu stór hluti af framlögum sjóðsins renna til félagasamtaka. Mín skoðun og áhugi liggur til þess að framlög úr framleiðnisjóði ættu að renna til þeirra sem eru að framleiða matvælin - til íslenskra bænda fyrst og fremst,“ segir Kristján Þór.

Telur að verið sé að brjóta rammasamning bænda

Einar Ófeigur Björnsson varaformaður bændasamtakanna segir að með því að leggja Framleiðnisjóðinn niður sé verið að brjóta rammasamning við landbúnaðinn sem gildi til 2026. „Það er bara alveg skýrt að það á að leggja fé í framleiðnisjóð út samningstímann. Ef menn ætla bara að leggja hann niður með lögum þá er verið að brjóta samninginn. Ég held að það geti ekki verið nokkur vafi,“ segir Einar Ófeigur. Endurskoðun búvörusamninganna er í lögskipuðu ferli. Í því felst endurskoðun rammasamningsins. 

Hafa áhyggjur af því að dreifbýlið gleymist í nýjum sjóði

Einar Ófeigur segir jafnframt að það sé þungt yfir bændum vegna frumvarps ráðherra. „Í orðinu matvælasjóður liggur að það eigi að þrengja mjög að því hvað sé hægt að úthluta. Lítil fyrirtæki til sveita sem eru ekki endilega að framleiða matvæli eru mjög mikilvæg til að halda landi í byggð. Bændur hafa áhyggjur af því að landbúnaðurinn týnist eða dreifbýlið, týnist í þessum nýja sjóði.“

„Það er full ástæða til að taka þessar áhyggjur alvarlega. Það á eftir að útfæra þessa hluti alla saman,“ segir Kristján Þór jafnframt.

 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV