Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Óli Stefán tekinn við KA

Mynd með færslu
 Mynd: - - KA

Óli Stefán tekinn við KA

01.10.2018 - 15:49
KA hefur ráðið Óla Stefán Flóventsson sem þjálfara félagsins í Pepsi-deild karla í fótbolta. Frá þessu greindu KA-menn í dag. Óli Stefán sem þjálfaði Grindavík síðustu þrjár leiktíðir gerir þriggja ára samning við KA.

„Nú þarf ég fyrst og fremst að setja mig inn í starfið og kynna mér alla möguleika í kringum þetta félag. Ég kem inn í félag sem hefur skýra framtíðarsýn og sterk gildi sem mér líkar. Mín vinna miðast alltaf við að taka skref áfram og þannig verður það líka hér. KA hefur fest sig í sessi á síðustu tveimur árum sem gott Pepsídeildarlið. Nú þarf ég að taka utan um það og reyna að móta lið sem getur tekið næstu skref í því ferli sem félagið hefur lagt grunn að,“ er haft eftir Óla Stefáni á heimasíðu KA í dag.

Undir stjórn Óla Stefáns varð Grindavík í 10. sæti í Pepsi-deildinni á nýafstaðinni leiktíð. Liðið endaði hins vegar í 5. sæti í fyrra með jafn mörg stig og KR sem endaði þá í 4. sæti.

Óli Stefán tekur við KA af Srdjan Tufegdzic sem ákvað áður en leiktíðinni lauk að róa á önnur mið eftir að Íslandsmótinu lyki. KA endaði í 7. sæti Pepsi-deildarinnar í ár með 28 stig, þremur stigum meira en Grindavík.

KA er annað liðið til að ráða nýjan þjálfara eftir að Pepsi-deild karla lauk um helgina. ÍBV tilkynnti á laugardagskvöld um að Portúgalinn Pedro Hipolito taki við þjálfun Eyjaliðsins af Kristjáni Guðmundssyni. Af þeim liðum sem leika í Pepsi-deildinni á næstu leiktíð er ljóst að Grindavík þarf svo að ráða nýjan þjálfara eftir að Óli Stefán hætti með Grindvíkinga.