Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólga í Sjálfstæðisflokknum vegna orkupakka

20.06.2019 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Undirliggjandi ólga er meðal félaga í Sjálfstæðisflokknum vegna þriðja orkupakkans. Dyggir Sjálfstæðismenn hafa sagt sig úr flokknum vegna málsins. 

Til stendur að samþykkja þriðja orkupakkann á Alþingi, en afgreiðslu var frestað fram í lok ágúst. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er eining innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins um málið, en sama gildir ekki um flokksfélaga í baklandinu.  Vísir hefur að undanförnu fjallað ítarlega um málið. 

Telja sumir flokksfélagar að með samþykkt þriðja orkupakkans gangi kjörnir fulltrúar gegn ályktun landsfundar um að hafna frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins. 

Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður og nú ritstjóri Morgunblaðsins, hefur notað þann vettvang óspart að undanförnu til að gagnrýna forystu flokksins í málinu. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, og fleiri rótgrónir Sjálfstæðismenn hafa tjáð sig á svipuðum nótum. 

Skoðanir eru skiptar, því fyrrverandi ráðherrarnir Björn Bjarnason og Halldór Blöndal hafa gagnrýnt leiðaraskrif Davíðs. Halldór, sem er formaður Samtaka eldri Sjálfstæðismanna, segist í samtali við fréttastofu telja að samstaða sé í flokknum og ánægja með forystuna. 

Háværar sögusagnir hafa þó verið um fjölda úrsagna. Bolli Kristinsson athafnamaður, sem hefur lengi verið dyggur bakhjarl, greindi frá því í dag að hann hefði gengið úr flokknum vegna orkupakkamálsins og sagði í Bítinu í Bylgjunni að flokkurinn væri að liðast í sundur. Elinóra Inga Sigurðardóttir, stofnandi Orkunnar okkar, sagði sig úr flokknum af sömu ástæðum fyrir nokkrum dögum eftir þrjátíu ára grasrótarstarf. 

Jón Karl Ólafsson, formaður Varðar - fulltrúaráðs í Reykjavík, segir í samtali við fréttastofu að málið sé erfitt og skiptar skoðanir innan flokksins og víðar. Hann segist ekki vita hversu margir hafi sagt sig úr flokknum að undanförnu en fullgróft sé að tala um klofning. 

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Sjálfstæðisflokknum um fjölda úrsagna en án árangurs. Þórður Þórarinsson er sagður sá eini sem getur veitt slíkar upplýsingar en hann er í fríi.

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV