Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ólafur Ragnar er í rauninni ég“

Mynd: Pétur Jóhann Sigfússon / Pétur Jóhann Sigfússon

„Ólafur Ragnar er í rauninni ég“

23.08.2019 - 13:27

Höfundar

„Allt þetta með að koma of seint, að vera alltaf að fá lánað og alltaf á leiðinni. Öll BYKO-árin mín voru svona,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon. Tuttugu ár eru frá því hann var valinn fyndnasti maður Íslands og verður áfanganum fagnað með nýju uppistandi í nóvember.

„Þessi 20 ár hafa flogið, mér líður enn eins og ég sé tvítugur,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon en hann var valinn fyndnasti maður Íslands árið 1999. „Ég var reyndar ekki tvítugur þegar ég byrjaði ég þessu brölti, sem var eiginlega bara slys, sé ég þegar ég rifja þetta upp. Ég sótti ekki um að keppa í þessari keppni en var ýtt úr í þetta þegar vinir mínir skráðu mig.“

Í tilefni af áfanganum verður grínistinn með glænýtt uppistand í Hörpu í haust. „Það er óþægilega stutt í þetta, ég tók þá ákvörðun að kýla á þetta í júní og hver einasti dagur hefur verið litaður af þessu síðan þá. Bara að sitja hér gerir mig stressaðan.“

Óvænt boðið starf í útvarpi

Á þeim tíma sem hann var kjörinn fyndnastur á Íslandi var Pétur Jóhann starfsmaður á plani í BYKO og átti ekki von á þeim vendingum sem urðu á lífi hans í kjölfarið. Það kom honum á óvart þegar fyrirtækið Fínn miðill sem rak útvarpsstöðvar á borð við X-ið og FM957 hringdi í hann og bauð honum vinnu. „Sem var svolítið skrýtið fyrir starfsmann hjá BYKO að vera spurður: Viltu ekki bara vinna í útvarpi?“ Á þessum tíma voru þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson starfsmenn hjá X-inu en þegar þeir hættu og fluttu sig yfir til Íslenska útvarpsfélagsins tóku þeir Pétur Jóhann með sér. „Þeir fengu mig til að vera með þátt með Dodda litla. Sá maður er sko lífsgæði.“ 

Veit ekkert hvort Auddi og Sveppi mæta

Pétur hefur komið víða við á ferli sínum en ásamt uppistandinu hefur hann leikið og skrifað en hann segir að rætur hans liggi í uppistandinu. „Maður hefur verið heppinn að vinna með mörgu góðu fólki, margt skrýtið sem hefur gengið á til dæmis í þessum ferðum sem maður hefur farið í með Audda og Sveppa og svona,“ segir hann. Spurður að því hvort félagar hans Auddi og Sveppi muni láta sjá sig á sýningunni svarar hann hlæjandi: „Ég veit ekkert um það!“

Í sjónvarpinu hefur hann brugðið sér í allra kvikinda líki og er einna frægastur fyrir að túlka hinn klaufalega Ólaf Ragnar í Vaktaseríunni svokölluðu. „Ólafur Ragnar er svo mikið ég. Allt þetta klúður í kringum hann er frá mér fengið,“ viðurkennir hann sposkur. „Allt þetta með að koma of seint, að vera alltaf að fá lánað og alltaf á leiðinni. Öll BYKO-árin mín voru svona, ég var vel meinandi en það gekk sjaldnast nokkuð upp.“

Hlátur úr sal er bensín á eldinn

Frásagnarstíll Péturs og smekkur í uppistandinu hefur að hans sögn lítið breyst í gegnum árin. „Mér finnst alltaf best þegar frásögnin kemur beint frá hjartanu, beint frá býli.“ 

Hann hefur verið í góðri æfingu síðustu ár en hann er vinsæll skemmtikraftur á árshátíðum, þorrablótum og alls kyns mannfögnuðum. „Munurinn á því að vera í útvarpi eða sjónvarpi og að vera með uppistand er að þú sérð viðbrögðin. Það er bensín á eldinn fyrir mig.“

Sigmar Guðmundsson og Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir ræddu við Pétur Jóhann í Morgunútvarpinu en allt innslagið má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Eina lesbían í uppistandi á Íslandi

Sjónvarp

Hannah Gadsby í Eldborg

Leiklist

„Mið-Ísland er bara ofmetið Morfís-lið"