„Þessi 20 ár hafa flogið, mér líður enn eins og ég sé tvítugur,“ segir Pétur Jóhann Sigfússon en hann var valinn fyndnasti maður Íslands árið 1999. „Ég var reyndar ekki tvítugur þegar ég byrjaði ég þessu brölti, sem var eiginlega bara slys, sé ég þegar ég rifja þetta upp. Ég sótti ekki um að keppa í þessari keppni en var ýtt úr í þetta þegar vinir mínir skráðu mig.“
Í tilefni af áfanganum verður grínistinn með glænýtt uppistand í Hörpu í haust. „Það er óþægilega stutt í þetta, ég tók þá ákvörðun að kýla á þetta í júní og hver einasti dagur hefur verið litaður af þessu síðan þá. Bara að sitja hér gerir mig stressaðan.“
Óvænt boðið starf í útvarpi
Á þeim tíma sem hann var kjörinn fyndnastur á Íslandi var Pétur Jóhann starfsmaður á plani í BYKO og átti ekki von á þeim vendingum sem urðu á lífi hans í kjölfarið. Það kom honum á óvart þegar fyrirtækið Fínn miðill sem rak útvarpsstöðvar á borð við X-ið og FM957 hringdi í hann og bauð honum vinnu. „Sem var svolítið skrýtið fyrir starfsmann hjá BYKO að vera spurður: Viltu ekki bara vinna í útvarpi?“ Á þessum tíma voru þeir Jón Gnarr og Sigurjón Kjartansson starfsmenn hjá X-inu en þegar þeir hættu og fluttu sig yfir til Íslenska útvarpsfélagsins tóku þeir Pétur Jóhann með sér. „Þeir fengu mig til að vera með þátt með Dodda litla. Sá maður er sko lífsgæði.“