Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ólafur fær fund sem verður opinn fjölmiðlum

04.05.2017 - 11:50
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur ákveðið að verða við beiðni Ólafs Ólafssonar um fund með nefndinni. Fundurinn verður opinn fjölmiðlum. Nefndin ákvað þetta á fundi sínum í morgun, að sögn Jóns Steindórs Valdimarssonar, sem fer fyrir nefndinni í umfjöllun hennar um einkavæðingu Búnaðarbankans.

„Nefndin fundaði í morgun og var að fara yfir vinnu sínu framundan í heild sinni og skipuleggja, þar á meðal gestakomur og frekari upplýsingaöflun. Meðal annars var rætt erindi Ólafs um að fá að koma fyrir nefndina,“ segir Jón Steindór. 

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að Ólafur hefði sent nefndinni erindi þar sem hann fer þess formlega á leit að fá að mæta á fund hennar. „Í því erindi gefur hann til kynna að hann geti varpað frekara ljósi á málavexti og stutt það mál sitt með gögnum og á þeirri forsendu var ákveðið að hafa hann einn af þeim sem koma fyrir nefnina til þess að ræða þessi mál,“ segir Jón Steindór við fréttastofu.

Rætt hefur verið um hvort fundurinn skuli vera opinn fjölmiðlum og þar með almenningi. Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, hefur sagt að það gæti verið óskynsamlegt. Brynjar sagði sig frá formennskunni í málefnum Búnaðarbankans þar sem hann var síðar verjandi eins lykilmanns í einkavæðingarfléttunni. Njáll Trausti Friðbertsson, samflokksmaður Brynjars í Sjálfstæðisflokknum og annar varaformaður nefndarinnar, hefur tekið í sama streng.

„Nefndin ræddi þetta og niðurstaða nefndarinnar er sú að þegar Ólafur kemur fyrir nefndina þá verði sá fundur opinn fjölmiðlum,“ segir Jón Steindór hins vegar.