Þá segir að í hlutverki sínu sem velgjörðarsendiherra muni Ólafur hjálpa Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna við „að vekja athygli á og auka stuðning við baráttuna gegn yfirstandandi loftslagsvá með listaverkum, sem eru til þess fallin að gefa endurnýjanlegum orkugjöfum byr í seglin, draga úr losun koltvísýrings og stuðla að verndun umhverfisins um ókomna tíð.“
Ólafur er einn þekktasti og áhrifamesti listamaður samtímans. Hann býr og starfar í Berlín og er einna þekktastur fyrir nokkur sannkölluð stórvirki sem iðulega eru innblásin af náttúruöflunum. Má þar nefna Veðurverkefnið (e: The Weather Project) sem sett var upp í Tate Modern-listasafninu í Lundúnum og Fossana í New York (The New York City Waterfalls).
Næsta verk: Íslenskt landslag með 20 ára millibili
Í tilkynningu Þróunarhjálparinnar segir að næsta verkefni Ólafs sé sýning á landslagsljósmyndum frá Íslandi síðar á þessu ári. Hann hafi tekið röð ljósmynda á ýmsum stöðum á landinu árið 1999 og heimsótt og ljósmyndað alla sömu staðina aftur í ár. Myndasyrpunum verður stillt upp hlið við hlið til að varpa ljósi á þær „sláandi breytingar“ sem orðið hafa á þessum 20 árum.