Ól barn standandi við Vesturlandsveg

26.09.2014 - 18:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Kona ól barn standandi við vegarbrún Vesturlandsvegar síðastliðinn þriðjudag. Hún gekk með tvíbura og fæddist sá seinni um hálftíma síðar á Landspítalanum.

Þau Elín Kristjánsdóttir Linnet og Hafsteinn Steinsson áttu von á tvíburum og var Elín gengin 36 vikur. Síðastliðinn þriðjudagsmorgun, þegar Hafsteinn var nýfarinn í vinnuna fann hún að eitthvað var að gerast og hringdi í hann og brunuðu þau sem leið liggur á Landspítalann. Þau komust ekki langt, því á Vesturlandsvegi, skammt frá Höfðabakka fann Elín að hún kæmist ekki lengra. Hafsteinn hringdi eftir sjúkrabíl og þau staðnæmdust við strætóskýli.

Elín áttaði sig á því að hún færi ekki lengra í bili. „Ég hugsaði bara, ég trúi ekki að þetta sé að gerast, þetta getur ekki verið að gerast.“ Hún steig út úr bílnum því henni fannst hún ekki geta setið lengur. „Af því að ég fann svo mikla rembingsþörf að ég varð bara að fara út, en ég vonaði samt að ég gæti beðið eftir sjúkrabílnum. Það gekk ekki, hann var svo fljótur að koma þannig að ég tók bara á móti honum standandi við bílinn í vegarkantinum, svona hálf í buxunum, svo þurfti ég að veiða hann upp úr buxunum.“

Elín vafði drenginn inn í dúnjakka. Hún segist hafa orðið rórri þegar hún heyrði barnið anda og gráta. Sjúkrabíllinn kom um sama leyti, en það varð smá bið á því að bróðirinn kæmi í heiminn. „Já hann kom hálftíma seinna, sem betur fer eftir að við vorum komin uppeftir.“

Fæðingin hafi gengið vel og bræðurnir séu sprækir. „Svolítið litlir, en mjög duglegir.“

Þeir bræður Tumi og Orri voru 8 merkur við fæðingu. Faðirinn missti eiginlega af fæðingunni á Vesturlandsvegi, því hann var að tala við Neyðarlínuna, en hann var mjög feginn þegar sjúkrabíllinn kom. „Það má eiginlega segja að um leið og við hittum þá kom fullkomin ró á ástandið. Það var alveg ótrúlega gott að sjá þá, þar voru miklir fagmenn  á ferð.“ 

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi