Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ökumenn í vandræðum á Öxnadalsheiði í nótt

26.03.2020 - 09:44
Mynd með færslu
 Mynd: Þorri Helgi
Björgunarsveitarmenn frá Súlum á Akureyri og Flugbjörgunarsveitinni í Varmahlíð stóðu í ströngu í nótt við að losa bíla og koma þeim niður af Öxnadalsheiði. Aðgerðum lauk um sexleytið í morgun og höfðu þá staðið í rúma sex klukkutíma.

Útkall um aðstoð barst upp úr miðnætti, en þá var fjöldi bíla fastur á heiðinni. Sex flutningabílar, einn strætisvagn og fimm fólksbílar.

Fastir í bílunum í vonskuveðri

Þorvaldur Helgi Sigurpálsson, félagi í Súlum, segir að mjög vont veður hafi verið á heiðinni og bílarnir setið fastir þar í einhverja klukkutíma áður en aðstoðin barst. Þorsteinn Frímann Guðmundsson, formaður Flugbjörgunarsveitarinnar, segir bílana hafa verið á um það bil kílómetra löngum kafla. Það hafi fyrst og fremst verið fólksbílarnir og strætisvagninn sem voru fastir og flutningabílarnir ekki komist leiðar sinnar þess vegna.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorri Helgi

Snjóblásari til aðstoðar

Snjóblásari frá Nesbræðrum, verktaka sem sér um snjómokstur á Öxnadalsheiði, gengdi lykilhlutverki í þessum aðgerðum að sögn Þorvaldar Helga. Með blásaranum hafi verið hægt að hreinsa snjó frá bílunum og ryðja leið svo auðveldara væri að losa þá.

Aðgerðir stóðu yfir í sex klukktíma

Þegar tekist hafði að losa bílana var öllum smalað saman og þeim fylgt niður í hollum. Síðustu bílar voru komnir niður af heiðinn um sexleytið í morgun en þá höfðu þessar aðgerðir staðið yfir í rúma sex klukkutíma.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorri Helgi

Átta sig ekki á aðstæðum á heiðinni

Þrátt fyrir vonskuverður á Öxnadalsheiði í alla nótt var ekkert að veðri á láglendi beggja vegna heiðarinnar. Þorsteinn Frímann segir að svona hafi þetta verið undanfarið. Fínasta verður og góð akstursskilyrði á láglendi en vonskuveður og skafrenningur þegar upp er komið. Þessu vari bílstjórar sig ekki alltaf á og lendi því í vandræðum.

Öxnadalsheiði hefur nú verið lokað fyrir allri umferð. Þar er skafrenningur og mjög blint.