Óku utan vegar að Fjallabaki þrátt fyrir bann

20.06.2019 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
Þegar landverðir Umhverfisstofnunar komu til starfa að Fjallabaki í byrjun sumars var talsvert af akstursförum utan vegar með fram stofnvegum innan friðlandsins. Svo virðist sem að ökumenn hafi farið inn fyrir lokanir, virt akstursbann í vor að vettugi og ekið utan vegar fram hjá snjósköflum sem enn voru veginum.

Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri á sviði náttúru, hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun, segir að mestar skemmdirnar séu afturkræfar enda séu þær á söndum. Annað gildi hins vegar um hjólför í gróðri.

„Þar sem keyrt er í gróðri og sérstaklega á þessum tíma þegar jörðin er sérstaklega viðkvæm þegar frost er að fara úr jörðu þá myndast mjög djúp för sem tekur mjög langan tíma að afmá. Sum þessara fara geta tekið áratugi að hverfa algjörlega,“ segir Hákon.

Til þess að afmá för úr gróðrinum beita landverðir handafli og færa jafnvel til gróður til að fylla upp í skemmdirnar. Þetta er tímafrek og erfið vinna. Þegar henni er lokið tekur það náttúruna enn talsverðan tíma að jafna sig.

Verkefni landvarða er fyrst og fremst að veita upplýsingar og leiðbeiningar um umgengni á hálendi Íslands. Störf þeirra eru þó ólík frá einu svæði til annars enda er náttúran fjölbreytt og ólíkir ferðamenn sem sækja landið heim.

Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er landvarsla á Íslandi í lágmarki miðað við fjölda gesta sem heimsækja friðlönd. Hákon segir að best sé að koma í veg fyrir náttúruspjöll á borð við utanvegaakstur með aukinni landvörslu og forvörnum.

Áhrif utanvegaaksturs ráðast nokkuð af tíðarfari. Í vor hefur verið óvenjuhlýtt og blautt og þá verða för eftir utanvegaakstur mun sýnilegri en ef frost helst lengur í jörðu. „Þetta fer mjög mikið eftir tíðarfari. Eins og var í vor þá var mjög blautt og vegir fóru illa. Þá verða förin miklu sýnilegri. Svo eru ár þar sem meira frost er í jörðu og snjór. Þá ver það landið mjög vel,“ segir Hákon.

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun

Hálendissvæði eru að opnast nokkuð fyrr en í meðalári enda óvenju lítill snjór víða og ástand almennt gott. Á Norðurlandi komu landverðir vel að sínum svæðum enda höfðu þau fengið tíma til að þorna vel áður en aðalstraumur ferðamanna kom á svæðið.

Spurður hvort hann hafi hugmynd um hversu margir hafi verið á ferð utan vegar að Fjallabaki segir Hákon það ekki marga einstaklinga. Það hefur tekist að hafa upp á einum ökumanni sem var kærður fyrir utanvegaaksturinn. Aðrir hafa sloppið.

„Viðurlögin eru mjög veik við því að keyra inn á lokað svæði. Það er mjög auðvelt að keyra inn á lokað svæði. En svo er það annað, að það er tímabært að það sé landvarsla allt árið að Fjallabaki,“ segir Hákon. Hann nefnir að skálaverðir séu nær allt árið í Landmannalaugum, enda er nokkur umferð um svæðið á veturna þegar vel viðrar.

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi