Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ókeypis tannlækningar réttindi fjölskyldna

04.01.2018 - 10:22
Mynd: RÚV / RÚV
Öll börn, sem eru með skráðan heimilistannlækni, eiga nú rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum eftir að innleiðing samnings Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands lauk að fullu 1. janúar. Tannlæknir hjá embætti landlæknis segir innleiðingu samningsins vera réttindamál fjölskyldna.

Samningur innleiddur í skrefum

Samningurinn tók gildi 15. maí 2013 en til að byrja með náði hann til elstu barnanna, auk þriggja ára barna, en síðan bættust við fleiri árgangar þar til samningurinn var innleiddur að fullu. Markmið samningsins er að tryggja börnum yngri en 18 ára nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá embætti Landlæknis, segir innleiðingu samningsins vera mikilvægt réttindamál fjölskyldna. Hún var gestur Samfélagsins á Rás 1 í gær. Með síðasta hnykknum í innleiðingu samningsins eiga börn undir 3 ára rétt á þjónustunni án þess að greiða annað en komugjald, einu sinni á ári, óháð meðferð. Gjaldfrjálsar tannlækningar ná yfir eftirlit, forvarnir, flúormeðferð, skorufyllur, tannfyllingar, rótfyllingar og annað sem telst til  nauðsynlegra tannlækninga.

Börn undir þriggja ára þurfa líka tannlækningar

Hólmfríður segir að þrátt fyrir ungan aldur þeirra sem nú eiga einnig rétt á þjónustunni, undir þriggja ára, þá séu tannskemmdir hjá þessum aldurshópi nógu margar. Hún mælir með því að foreldrar panti tíma hjá tannlækni fyrir börn þegar þau eru 2 ára. Hólmfríður segir að helstu orsakaþættir tannsjúkdóma séu neysluvenjur, aðgengi að sykri og tannhirða. Hún bendir á að sum börn fái djús og sykraða drykki í pela. Slíkir drykkir séu miklir skaðvaldar og sérstaklega ef þeir eru gefnir að næturlagi. Í pela eigi bara að fara mjólk og vatn. Hómfríður segir að meðferðarþörfin hjá þessum börnum geti verið mikil. Þrátt fyrir foreldrafræðslu virðist framkvæmdin oft ekki vera í samræmi við vitneskju.

Verða að hafa skráðan heimilistannlækni

Til að eiga rétt á gjaldfrjálsum tannlækningur þurfa börnin að vera með skráðan heimilistannlækni og er hlutverk hans m.a. að boða börn í reglulegt eftirlit, eftir þörfum hvers og eins, en ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Hann sinnir einnig forvörnum. Til að skrá heimilistannlækni í Réttindagátt en Hólmfríður bendir á að einnig sé hægt að panta tíma hjá heimilistannlækni sem gengur þá frá skráningu. Heimilistannlæknar eru með virkan samning við Sjúkratryggingar. Áður en samningurinn um gjaldfrjálsar tannlækningar var innleiddur var það orðið svo að Sjúkratryggingar miðuðu við eina gjaldskrá og tannlæknar við aðra og bilið á milli varð alltaf meira og því kostnaðurinn sem lenti á fólki sífellt meiri. Hólmfríður segir að nú sé það þannig að þeir heimilistannlæknar sem eru með samning við Sjúkratryggingar eru með eina gjaldskrá sem að Sjúkratryggingar greiða eftir.

Tannréttingar undanskyldar

Þótt mikil breyting hafi orðið á með innleiðingu samningsins um gjaldfrjálsar tannlækningar barna þá bendir Hólmfríður á að enn standi tannréttingar utan kerfisins. Foreldrara ráða miklu meira um hvort að tennur barna þeirra skemmist en hvort þær þurfi á tannréttingum að halda.

 

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður