Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ók vespu frá Íslandi til Portúgals með saltfiskshlass

Mynd: RÚV / RÚV

Ók vespu frá Íslandi til Portúgals með saltfiskshlass

09.03.2020 - 11:43

Höfundar

„Ég átti mér draum draumanna og vildi fljúga á vespu yfir hafið til Portúgals. Í þetta sinn vildi ég gera listaverk og fékk þá hugmynd að fara á vespunni frá Íslandi til Portúgals og taka með mér gjöf. Það var draumurinn,“ segir listakonan Monika Fryčová.

Monika ferjaði 10 kíló af íslenskum saltfiski á vespu til Portúgals og gerði listgjörningnum síðan skil í bók sem kom út nýverið. Fryčová er tékknesk og lærði myndlist í heimalandinu, Bandaríkjunum og Mexíkó áður en hún kom til Íslands árið 2003. „Ég sótti um í Trínidad og Tóbago, á Jamaíku og Íslandi. Ísland vildi taka við mér vegna möppunnar minnar. Ég fór í Listaháskólann í skiptinám. Þá fór ég líka að uppgötva Ísland og sveitina. Ég fór á puttanum víða um land, til Vestfjarða, Krossness, Langaness og ýmissa fjarða. Ég fann nýja fegurð og er mjög fegin að ég fór ekki til Mexíkó af því að til er önnur mjög kraftmikil fegurð sem ég vissi ekki að væri til. Þess vegna fór ég að vinna með öðrum myndlistarmönnum og tónlistarmönnum og nú er ég hér fyrir austan,“ segir hún. 

„Fannst ég klikkuð“

Hugmyndin að saltfisksferðalaginu var nokkra mánuði í mótun. „Í fyrsta lagi vissi ég ekki hvað ég ætti að taka með. Bræðurnir Sigurbergur og Torfi eru frá Seyðisfirði. Við borðuðum oft saman, ég eldaði fyrir þá og svo spurði ég þá hvort þetta væri hægt. „Jú, það er hægt“, sögðu þeir, en þeim fannst ég klikkuð. Enginn trúði að þetta væri gerlegt. Þeir vildu að ég færi með lambalæri en það hefði skemmst á leiðinni. Svo fengum við þessa hugmynd um saltfiskinn. Verkið er um eins konar þjóðararfleifð Portúgala. Fiskurinn er veiddur hér, hann geymir orku. Hann er saltaður og þetta tengist sögunni.Þá var ég farin að sjá hver atburðarásin yrði og ég fór að undirbúa skjöl og skráningu fyrir hjólið og fiskinn. Ég fékk fiskinn frá Kalla Sveins á Borgarfirði eystra. Þarna var ég, á leiðinni með Norrænu, með sjálfa mig og hjólið á leið til Danmerkur og svo þaðan til Portúgals.“ Monika ferðaðist án allrar nútímatækni og var hvorki með snjalltæki né staðsetningarforrit. Hún spurði til vegar og fékk leiðbeiningar teiknaðar á blöð eða handarbak.

Ferðalagið tók tæpa fjóra mánuði, frá september til desember. „Þetta var ógnvekjandi í upphafi. Ég lagði af stað uppfull af orku og langaði að búa til samskipti milli fólks. Sameina það, deila með því og allt. En um leið og ég kom til Hirsthals í Danmörku villtist ég og mér leið illa. Ég keyrði á gangstéttunum, ég þorði ekki út á göturnar. Allir fylgdust með mér og ég með öllum þannig að mér leið eins og ég væri á sviði í búningi; leðurjakka, leðurbuxum og ullarnærfötum. Svo fór ég bara af stað,“ segir hún.

Bensínstöð eins og gallerí

Í ferðinni gekk á ýmsu, vespan hægði smátt og smátt á sér og bilaði nokkrum sinnum á leiðinni. „Ég gat farið hliðarvegi því hjólið komst 45 km/klst. Ég gat ekki lengur farið hraðbrautirnar. Stundum villtist ég. Ég kann vel að meta bensínstöðvarnar. Tilfinningin þar er dálítið eins og að vera í galleríi. Þar er enginn valdastigi. Allir koma og taka bensín. Ríkir, fátækir, listamenn, venjulegt fólk, tískuhönnuðir, stjórnmálamenn af öllu tagi, gengi. Svo sagði ég þeim söguna, þeir sáu íslenska númeraplötu, þeir heilsa manni og maður heldur áfram,“ segir Monika. 

Gómsætar saltfiskbollur

Allt fór þetta vel að lokum. Monika komst heil á húfi með farm sinn á áfangastað og rak þar smiðshöggið á listgjörninginn með matarveislu þar sem saltfiskurinn var í aðalhlutverki. „Ég fór frá Íslandi til Portúgals bara til að elda kvöldmat. Og það gerðist. Ég kom og þarna var fólk sem kunni vel að matreiða þorskinn. Þetta var sérstakt ferli því fiskurinn þurfti að liggja í vatni í þrjá daga og svo voru gerðar bollur og salat sem kallast punheta de bacalhau, það er hrásalat með ólífum, lauk og saltfiskbitum. Sýningin í Lissabon var þannig að fólk kom, það var mikið af víni, vespan var til sýnis í salnum. Gestirnir komu og borðuðu fiskinn og hann var mjög góður, hann hélt sér vel.

Bók Moniku um ferðalagið nefnist Pure mobile vs. dolce vita en þar er ferðalagið skrásett frá óvæntum vinklum.