Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ok vekur athygli um allan heim

19.08.2019 - 19:28
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Athöfn til minningar um jökulinn Ok í gær hefur vakið heimsathygli. Prófessor í mannfræði við Rice-háskóla í Bandaríkjunum, sem var á meðal þeirra sem stóðu að athöfninni, vonar að sumarfundur forsætisráðherra Norðurlandanna sem nú stendur yfir hér á landi verði til þess að vekja enn frekari athygli á málinu.

Yfir hundrað manns gengu upp á Ok í gær þar sem afhjúpaður var minnisvarði um jökulinn sem eitt sinn var. Atburðurinn hefur vakið heimsathygli og erlendir fjölmiðlar sýnt honum mikinn áhuga, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að ofan.

„Þetta er að mínu mati stórviðburður. Ísland er að senda frá sér mjög skýr skilaboð til heimsins,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, við athöfnina.

Oddur Sigurðsson jarðfræðingur segir að það styttist mjög í að stærri jöklar en Ok hverfi, svo sem Torfajökull, Þrándarjökull og Hofsjökull eystri. En er hægt að bjarga þeim?

„Nei, ég á ekki von á því að það verði neitt sem hægt er að gera til að bjarga þeim úr því sem komið er. Hvort að það verði hægt að bjarga einhverjum af íslensku jöklunum - það skal ég láta ósagt en þeir verða ekki svipur hjá sjón.“

Margir láta sér annt um jöklana

Vísindamenn frá Rice-háskóla í Bandaríkjunum voru á meðal þeirra sem stóðu fyrir athöfninni í gær.

„Sem mannfræðingar höfum við mikinn áhuga á hinu mannlega ástandi. Sannleikurinn er sá að hið mannlega ástand hefur nú verið skilyrt og því breytt vegna verka mannanna, það er að segja loftslagsbreytinga af manna völdum. Við finnum nú virkilega fyrir áhrifum þess sem við höfum gert jörðinni. Við sjáum það greinilega hér, þar sem Ok hefur bráðnað,“ segir Cymene Howe, prófessor í mannfræði við Rice-háskóla.

Athyglin sem Ok hefur vakið víða um heim ber upp á sama tíma og leiðtogafundurinn hér á landi.

„Við vissum ekki af fundinum þegar við skipulögðum þetta en þetta er heppileg tilviljun því nú teljum við mögulegt að sagan um Ok og öll athygli fjölmiðla um allan heim sýni fólki að margir láta sér mjög annt um bráðnun jökla, hvar sem er í heiminum,“ segir Dominic Boyer, sem einnig er prófessor í mannfræði við Rice-háskóla.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins Í Bretlandi, sendi í dag Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, bréf þar sem hann minnist á gönguna á Ok, og lýsir um leið yfir stuðningi við aðgerðir Katrínar í loftslagsmálum. Þá hvetur hann hana til þess að lýsa yfir neyðarástandi vegna loftslagsbreytinga.