Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óheimilt að synja 50 Bangladessum um námsvist

21.05.2019 - 11:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að Útlendingastofnun hafi ekki verið heimilt að banna 50 manns frá Bangladess að koma til landsins til að stunda nám við Háskólann á Bifröst. Útlendingastofnun hafði hafnað öllum umsóknunum á grundvelli þjóðernis en stofnunin taldi að hætta væri á að þessir nemendur væru allir að sækja um á röngum forsendum. Kærunefnd útlendingamála hefur nú hafnað þessu röksemdum.

Árið 2017 ákvað Háskólinn á Bifröst að stefna inn á alþjóðlegan markað og bjóða upp á námsleiðir sem kenndar eru á ensku. Frá þeim tíma hefur verið lögð áhersla á að kanna hvernig best sé að skipuleggja námið til að fá góða umsækjendur erlendis frá.

„Skólinn hefur því verið með umboðsmenn í tilteknum löndum sem hafa haft milligöngu fyrir mögulega nemendur, meðal annars í Bangladess,“ segir Leifur Runólfsson, sem fer með málin fyrir hönd Bangladessana. „Með því er skólinn bæði að styrkja sig fjárhagslega séð og gæðalega. Skólinn hefur mikið verið að sækja á Asíumarkað,“ segir hann en erfiðara er að fá nemendur frá Evrópu og Bandaríkjunum að hans sögn.

Fyrir síðustu vorönn sóttu svo 50 manns frá Bangladess um námið, sem er nokkurs konar viðskiptafræðinám, og dvalarleyfi vegna náms hér á landi. „Þegar í ljós kom að Útlendingastofnun hefði hafnað þeim öllum á grundvelli þjóðernis og grunsemda um að þeir hygðust svo sækja um hæli hér á landi kærðu 47 þeirra ákvörðunina,“ segir Leifur.

Segir Leifur því að búast megi við því að fólkið muni geta hafið nám á Bifröst á haustönn á þessu ári. „Við vonumst til þess. Við þurfum náttúrulega að bíða eftir málsmeðferðinni hjá Útlendingastofnun þar sem farið verður yfir umsóknirnar að nýju og gefin út dvalarleyfi.“

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV