Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óheimilt að auglýsa ókeypis heilsurækt

02.08.2019 - 11:01
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Neytendastofa hefur úrskurðað að líkamsræktarstöðinni Hreyfingu hafi verið óheimilt að auglýsa ókeypis heilsurækt fyrir sumarmánuðina gegn því að viðskiptavinir keyptu árskort hjá stöðinni.

Fyrr í sumar auglýsti líkamsræktarstöðin árskort undir slagorðunum „æfðu frítt í sumar“ og „þú æfir frítt til 1. ágúst 2019.“  Skilyrðið fyrir því að æfa frítt yfir sumarmánuðina var að kaupa árskort hjá stöðinni. Að mati Neytendastofu var auglýsingin dæmi um óréttmæta og villandi viðskiptahætti.

Í svari Hreyfingar til Neytendastofu kemur fram að félagið hafi talið að skilaboðin væru skýr þar sem í textanum stóð: „Þú æfir frítt til 1. ágúst og árskortið gildir til 1. ágúst 2020.“ Þannig hafi engum blekkingum verið beitt í markaðssetningunni og rökstuddi fyrirtækið mál sitt með því að önnur fyrirtæki, t.d. símafyrirtæki, bjóði viðskiptavinum upp á fría áskrift fyrstu mánuðina.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að Hreyfing hefði brotið gegn ákvæðum í lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Með því að nota orðið frítt sé villt um fyrir neytendum. Auglýsingin geti þannig haft áhrif á fjárhagshegðun neytenda og hvatt þá til þess að taka viðskiptaákvarðanir sem þeir myndu annars ekki taka. Í niðurstöðunni kemur einnig fram að Neytendastofa meinar Hreyfingu að stunda viðskiptahætti sem þessa og tekur bannið gildi strax. Fari félagið ekki eftir þessu gæti það varðað sektir.

Tinna Eiríksdóttir
Fréttastofa RÚV