Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óheftir gróðureldar loga í Portúgal

22.07.2019 - 08:41
Members of the emergency services try to extinguish a wildfire near Cardigos village, in central Portugal on Sunday, July 21, 2019. About 1,800 firefighters were struggling to contain wildfires in central Portugal that have already injured people, including several firefighters, authorities said Sunday. (AP Photo/Sergio Azenha)
 Mynd: AP
Tugir hafa slasast í gróðureldum sem hafa brunnið í miðhluta Portúgals síðan á laugardag. Óhagstæð veðurskilyrði valda því að ekkert fæst við þá ráðið. Íbúar nokkurra þorpa hafa orðið að flýja undan eldunum.

Að sögn portúgalskra fjölmiðla hafa að minnsta kosti þrjátíu slasast af völdum eldanna, þar af einn alvarlega. Þeir kviknuðu á þremur stöðum á laugardag í héraðinu Castelo Branco, um 225 kílómetra norðaustan við höfuðborgina Lissabon. Slökkviliðsmenn áætluðu að verða búnir að ná tökum á eldunum í gærmorgun, en það gerðist ekki, einkum vegna kröftugra vinda.

Gróður er byrjaður að brenna í nágrannahéraðinu Santarem og stefna eldarnir að tveimur þorpum, þar sem nokkur fjöldi býr. Að minnsta kosti fimmtán þorp hafa þegar verið rýmd í héraðinu.

Um 1800 slökkviliðsmenn reyna að ná tökum á eldunum. Þeir eru með yfir 350 bíla og sextán flugvélar við slökkvistarfið. Hópur almennra borgara tekur þátt í aðgerðum með fötur og garðslöngur að vopni. Ekki er talið að við neitt verði ráðið í dag, þar sem útlit er fyrir hátt í fjörutíu stiga hita á sumum stöðum í miðhluta Portúgals auk strekkingsvinds.

Verstu skógareldar á síðari tímum í Portúgal urðu í júní 2017. Þeir urðu sextíu og fjórum að bana. Hátt á þriðja hundrað slösuðust.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV