
Að sögn portúgalskra fjölmiðla hafa að minnsta kosti þrjátíu slasast af völdum eldanna, þar af einn alvarlega. Þeir kviknuðu á þremur stöðum á laugardag í héraðinu Castelo Branco, um 225 kílómetra norðaustan við höfuðborgina Lissabon. Slökkviliðsmenn áætluðu að verða búnir að ná tökum á eldunum í gærmorgun, en það gerðist ekki, einkum vegna kröftugra vinda.
Gróður er byrjaður að brenna í nágrannahéraðinu Santarem og stefna eldarnir að tveimur þorpum, þar sem nokkur fjöldi býr. Að minnsta kosti fimmtán þorp hafa þegar verið rýmd í héraðinu.
Um 1800 slökkviliðsmenn reyna að ná tökum á eldunum. Þeir eru með yfir 350 bíla og sextán flugvélar við slökkvistarfið. Hópur almennra borgara tekur þátt í aðgerðum með fötur og garðslöngur að vopni. Ekki er talið að við neitt verði ráðið í dag, þar sem útlit er fyrir hátt í fjörutíu stiga hita á sumum stöðum í miðhluta Portúgals auk strekkingsvinds.
Verstu skógareldar á síðari tímum í Portúgal urðu í júní 2017. Þeir urðu sextíu og fjórum að bana. Hátt á þriðja hundrað slösuðust.