Ögrandi sýning þurfti ögrandi auglýsingu

Mynd með færslu
 Mynd:

Ögrandi sýning þurfti ögrandi auglýsingu

25.11.2014 - 13:59
Fréttablaðið sló því upp á forsíðu í dag að Margrét Vera Mánadóttir, 17 ára Hólmavíkurmær, teldi Richard O'Brien, höfund söngverksins Rocky Horror, vera föður sinn. Sagan reyndist vera uppspuni frá rótum. Yfirmaður dægurmála á blaðinu segir að vinnubrögð hefði átt að vanda betur.

Margrét Vera tekur þátt í menntaskólasýningu á verkinu þar sem hún fer með hlutverk þjónsins Riff Raff, sem O'Brien leikur í myndinni.

Frásögn Margrétar Veru í Fréttablaðinu, undir fyrirsögninni „Pabbinn samdi Rocky Horror," er uppspuni frá rótum. 

„Formanni leikfélagsins datt þetta í hug og mér fannst þetta frábær hugmynd," segir hún. „Við sendum póst á Fréttablaðið þar sem ég sagði að mamma og vinkona hennar hafi hitt O'Brien í London 1997 og mamma hafi haldið því fram síðan að hann væri pabbi minn."

Hún lét foreldra sína vita af sprellinu áður en pósturinn var sendur og segir þau hafa tekið vel í það. 

„Fréttablaðið vildi ekkert tala við mömmu mína eða neitt til að fá þetta staðfest," segir hún. „Sem mér fannst fyndið. En ég bjóst auðvitað aldrei við því að þetta yrði svona mikið mál og færi á forsíðuna. En við vildum ekkert vesen svo formaðurinn sendi fréttakonunni póst í dag um að þetta hefði verið grín. Og ég held að hún hafi tekið því vel."

Guðrún Smáradóttir, móðir Margrétar Veru, segir þetta vera dóttur sinni líkt.

„Þetta er bara mjög skemmtilegt grín," segir hún. „En ég hélt nú að fólk hefði áttað sig á því að þetta væri uppspuni. Mér datt aldrei í hug að þau tryðu þessu."

Í frétt blaðsins sagði að O'Brien væri samkynhneigður. Í útgáfunni á Vísi.is hefur verið birt árétting þar sem það er leiðrétt. Margréti Veru er skemmt yfir því, þar sem það sé svo sannarlega ekki það sem þurfi að leiðrétta í fréttinni. En hún segir viðtalið hafa skilað tilætluðum árangri og meira til. 

„Fólk er að hringja á fullu og spyrja hvar það geti pantað miða og hvort það verði aukasýningar og svona," segir hún. „Þetta er ögrandi leikrit og við vildum gera ögrandi auglýsingu. Sem virkaði greinilega."

Freyr Bjarnason, yfirmaður dægurmála á Fréttablaðinu, segir ljóst að vinnubrögð blaðsins hefði átt að vanda betur. 

„Margrét Vera sýndi það í viðtalinu við Fréttablaðið að hún á framtíðina fyrir sér í markaðssetningu. Þetta er hress stelpa sem greinilega er tilbúin til að ganga mjög langt til að vekja athygli á sjálfri sér og sýningunni," segir hann. „Vissulega hefðum við átt að vanda vinnubrögð okkar betur en eftir stendur að vafalítið á eftir að verða uppselt á sýningu Rocky Horror í Menntaskóla Borgarfjarðar í allan vetur."

[email protected]