Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Óglatt og hræddir eftir flug Icelandair til Manchester

09.02.2020 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Vél Icelandair, sem var á leið til Manchester frá Keflavík lenti í mikilli ókyrrð vegna óveðursins Ciara sem nú gengur yfir Bretlandseyja. Vélinni var snúið við og lent í Glasgow. Fljúga átti vélinni, sem er af gerðinni Boeing 757-256, aftur til Íslands en flestir farþegar um borð neituðu að fljúga aftur. Atvikið hefur verið tilkynnt til rannsóknarnefndar samgönguslysa sem lét breska rannsóknarnefndina vita af málinu.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu greip geðshræring um sig meðal farþega þegar vélin lenti í ókyrrðinni. Fólk grét og vildi alls ekki að vélin tæki aftur á loft þegar hún var lent í Glasgow.

Einn farþegi lýsir upplifun sinni á Twitter þar sem hún biðlar til flugmálayfirvalda á flugvellinum í Glasgow að hleypa þeim frá borði.  „Eftir okkar hræðilegu upplifun erum við svöng, okkur er óglatt og mörg hrædd. Við þurfum loft, rými og mat og drykk,“ skrifar farþeginn. 

Hún segir að þegar flugmaðurinn hafi tilkynnt að hugmyndin væri að fljúga aftur til Íslands og reyna við Manchester síðar hafi farþegarnir hrópað „nei“ í einum kór. Síðar hafi hann tilkynnt að þeir sem vilji geti orðið eftir í Glasgow og að Icelandair muni greiða fyrir ferðalag þeirra til Manchester.

Annar farþegi hrósar flugmanni vélarinnar fyrir það hvernig hann stýrði vélinni og að hann hafi reynt allt til að lenda henni í Manchester. „Við erum lent heilu á höldnu í Glasgow.“

Þorkell Ágústsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa staðfestir í samtali við fréttastofu að Icelandair hafi tilkynnt atvikið. Þeir hafi vísað málinu áfram til breskra yfirvalda.  Icelandair segir í tilkynningu á Twitter að öryggi farþega sé alltaf í forgangi og flugfélagið geri allt til að tryggja það. 

Mynd af flugi vélarinnar á Flight Radar sýnir hvernig flugmennirnir reyndu að lenda í Manchester en hættu síðan við að og héldu til Glasgow. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot af Flight Radar - RÚV
Flug vélarinnar yfir Manchester

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem vél frá Icelandair lendir í vandræðum á leið sinni til Manchester. Rannsóknarnefnd samgönguslysa er með til rannsóknar flug félagsins í febrúar 2017 og snýr sú rannsókn meðal annars að því af hverju var farið í ferðina þegar stormurinn Doris gekk yfir Bretlandseyjar. Fjölmörg flugfélög aflýstu ferðum sínum þann dag. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV