Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Oftast mikið að gera í Evrópuleikjunum“

Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

„Oftast mikið að gera í Evrópuleikjunum“

01.08.2019 - 08:30
„Úrslitin úti voru náttúrulega ekkert sérstaklega hagstæð okkur í vil þannig að við þurfum bara að fara í þennan leik og njóta hans,“ segir Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar um leik liðsins gegn spænska liðinu Espanyol í Evrópudeild karla í fótbolta í Garðabæ í kvöld.

Stjarnan tapaði fyrri leiknum ytra 4-0 eftir að hafa haldið leiknum markalausum fram að leikhléi. Haraldur segir að ákveðinn gæðamunur hafi sýnt sig þegar leið á leikinn.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög fínn, mjög sterk frammistaða þar sem við lögðum líf og sál í þetta og náum að halda hreinu í hálfleik. Svo stigu þeir upp og sýndu smá gæðamun þarna og ná að setja þessi mörk,“

Þrátt fyrir stórt tap segir Haraldur það frábæra upplifun að spila á svo stórum velli fyrir framan tugi þúsunda.

„Alveg virkilega gaman, þetta var lífsreynsla og að spila á móti liði í spænsku úrvalsdeildinni sem er ágætt. Svo eru læti og djöfulgangur í stúkunni. Þetta var bara mjög gaman þrátt fyrir úrslitin.“

Haraldur býst við að hafa mikið að gera milli stanganna í kvöld.

„Í Evrópuleikjunum er oftast alltaf mikið að gera. Þegar þú ert kominn í Evrópukeppni ertu að mæta góðum liðum. Það er hörkubarátta og liggur oft á markmanninum. Það er bara skemmtilegt.“

Stjarnan mætir spænska liðinu Espanyol klukkan 19:15 á heimavelli sínum í Garðabæ í kvöld. Þeir eru ekki eina íslenska liðið sem verður í eldlínunni en Valur mætir Búlgaríumeisturum Ludogorets ytra klukkan 17:30. Staðan í þeirra einvígi er jöfn 1-1.

Viðtalið við Harald má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

„Svo mikil þvæla að hálfa væri nóg“