Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Oft er gott það er gamlir (og ungir) kveða

Mynd með færslu
 Mynd: Huldumenn

Oft er gott það er gamlir (og ungir) kveða

13.03.2020 - 11:26

Höfundar

Þúsund ára ríkið er fyrsta hljómskífa Huldumanna sem byggja á gömlum Gildrugrunni, en er jafnframt plata vikunnar á Rás 2.

Huldumenn var nafnið á fyrstu plötu Gildrunnar (1987) sem varð fljótlega með allra bestu rokksveitum landsins. Ástríðufullt rokk var á matseðlinum, spilamennska með miklum ágætum og sveitinni líkt við hljómsveitir eins og U2 sökum elju og sannferðugheita. Í það hlýtur nafn Huldumanna að vísa, enda meðlimir að hluta úr Gildrunni, þeir Birgir Haraldsson og Sigurgeir Sigmundsson, sem kom inn á seinni stigum. Aðrir Huldumenn eru þeir Birgir Nielsen, Ingimundur B. Óskarsson og Jóhann Ingvason en samanlögð reynsla veltur á tuga ára og hljómsveita. Gildrubragurinn er þá jafnframt í textum en höfundur flestra texta á plötunni Þórir Kristinsson hirðskáld Gildrunnar. Aðra texta eiga Bjarki Bjarnason og Guðni Már Henningsson. Jóhann Ásmundsson tók plötuna svo upp í Stúdíó Paradís.

Lund og gæði

Innihaldið er á ýmsa lund og gæðunum nokkuð misskipt. Platan fer reyndar feykivel af stað. „Hrafninn“ er gott lag, haganlega útsett og samið og yfir því reisn. Þægilegur andi, framvindan í millitakti og hæglætisgírinn er umvefjandi. Hljóðfæraleikur til fyrirmyndar og Birgir syngur með glans. Í raun gengur allt upp í þessu tilfelli. Kjarnyrtur íslenskur texti prýðir það og textar eru almennt fínir þó þeir eigi það til að fara í yfirgír og verða klunnalegir. Platan er eiginlega þrískipt. Efsta lagið einkennist af lögum eins og „Hrafninum“ og svo fínustu ballöðum eins og „Maí“ sem er falleg og inniheldur sérdeilis magnaðan gítarleik Sigurgeirs sem hreinlega skín á þessari plötu. Sólóið hans gefur laginu vængi. „Gamall sálmur“ er stóreflissmíð, í senn lágstemmt og epískt. Rödd Birgis nýtur sín mjög vel í þessum lögum, þar sem hann fær tíma og situr í ljúflingsgír. Ég veit að margir hrífast af rokksöngvaranum Birgi en sú fjöl hentar honum síður, a.m.k. á þessari plötu. Svo eru lög sem eru allt í lagi, fín en ekki mikið meira. „Mánudagur“ er blúsrokkari, ágætur til þess að gera og „Aftur heim“ er tilþrífalítil ballaða og sama má segja um „Spilaborg“.

Síðan eru lög sem sitja óþægilega á botninum. Stærsta feilsporið er í „Vondu ljóðin“ sem hefst á þessum ljóðlínum: „Rýr er sú risna, er rökkurskáldin fá.“ Það er illþyrmisbragur yfir þessu lagi, rembingslegur þungarokksblús sem gerir lítið. „Þrusk“ er sömuleiðis leiðindablús og „Kuklarinn“ neyðarlegt þungarokksýlfur.

Einstök rödd

Hljómur allur er þá dálítið kominn yfir síðasta söludag og útsetningar og lausnir á stundum hæpnar. Sjá t.d. „Þúsund ára ríkið“ hvar bakraddir minna á gamlar plötur með Clannad frá níunda áratugnum.

Mönnum eru semsagt mislagðar hendur á þessari plötu en þau lög sem standa upp úr bera með sér áferð reynsluboltans, blærinn hofmannlegur og traustur einhvern veginn. Þetta heyrist langbest í opnunarlaginu. Spilamennska er þá öll hin fagmannlegasta. Og það sem meira er, það er ástríða og einlægni yfir verkinu. Söngrödd Birgis er þá auðvitað einstök, og fær að njóta sín, oftar en ekki.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Einlægt, óskrifað blað

Popptónlist

Einlægt nútímapopp

Tónlist

Einlægt og ástríðufullt

Tónlist

Einlægt og heiðarlegt verk