Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Offita að meðaltali tjáning á lélegri heilastarfsemi

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Í dag stendur Íslensk erfðagreining fyrir opnum fundi um offitu í húsakynnum sínum sem hefst klukkan 13:00. „Það má að mörgu leyti líta á offitu sem fíknisjúkdóm,“ segir Kári Stefánsson forstjóri ÍE sem verður einn af fyrirlesurum.

„Við erum búin að vinna 20 ár að því að rannsaka erfðir líkamsþyngdar,“ segir Kári í samtali við Síðdegisútvarpið en samkvæmt nýlegum rannsóknum er offita algengari á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. „Hvernig breytileikar í erfðamengi mannsins hafa áhrif á hversu mikla þyngd menn bera með sér, og síðan hvernig þyngdin hefur áhrif á annars konar vandamál og sjúkdóma. Hvernig hún eykur líkurnar á hjartabilun, háþrýstingi og alls konar krabbameinum.“

Kári segir að þáttur erfða í offitu sé býsna sterkur. „Þá er spurningin hvernig þessir breytileikar í erfðamenginu hafa áhrif á líkamsþyngd. Þessi breytileikar gera það að mestu leyti með því að hafa áhrif á hegðun, offita er að mörgu leyti hegðunarvandamál.“ Breytileikarnir sem hafi áhrif á líkamsþyngd séu flestir í erfðavísum sem eru tjáðir í heila. „Og ætti engum að koma á óvart vegna þess að það sem hefur mest áhrif á hversu þung við erum er hvað við borðum. Það má að mörgu leyti líta á offitu sem fíknisjúkdóm. Vegna þess að offitan markast af endurtekinni hegðun sem er að mörgu leyti svipuð þeirri hjá fíklinum sem sprautar sig með morfíni eða drekkur áfengi.“

Fíknisjúkdómar virðast hafa samnefnara, segir Kári, eins konar verðlaunabrautir í heila. „Síðan eiga menn sitt uppáhalds fíkniefni, hjá sumum er það áfengi, hjá öðrum er það tóbak, og þeim þriðja er það matur. Maturinn hefur kannski óbeinni áhrif á þessa ferla innan heila sem verðlauna okkur.“ Efni eins og amfetamín og kókaín hafi beinni áhrif en maturinn geri það líka. „Ef maður tekur breytileika í erfðamenginu sem hefur áhrif á, eða samspil hæðar og þyngdar, þeir breytileikar hafa líka áhrif á tóbaksfíkn, áfengissýki og svo framvegis. Þó það megi deila um það hversu mikið þessir klassísku fíknisjúkdómar skarast við offitu, en það er alveg ljóst að það skarast mjög mikið þegar þú skoðar erfðirnar.“

Kári segir það sé vitað mál að offita hafi mjög mikil áhrif á alvarlega sjúkdóma. Hann þekkir til vísindamanna og fyrirtækja sem séu að þróa lyf sem komi í veg fyrir offitu, en í stað þess að vigta fólk skoði þeir áhrif lyfjanna á blóðþrýsting, hjartabilun, sykursýki og fleira. „Þeira hoppa yfir þyngdina og fara beint í alvarlegar afleiðingar þyngdarinnar. Þannig þessi offita er mjög stórt heilbrigðisvandamál.“

Í dag eru engin góð lyf á markaði til að fyrirbyggja eða lækna offitu. „Þau lyf sem við þekkjum sem hafa áhrif á að minnka matarlyst eru lyf með miklar aukaverkanir eins og amfetamín.“ Amfetamín minnkar mjög matarlyst og hefur grennandi áhrif en það er mat samfélagsins að aukaverkanirnar séu það miklar að ekki sé réttlætanlegt að nota það. „Þá er það spurning, er hægt að búa til þannig afbrigði af amfetamíni sem hefur eingöngu þau áhrif að minnka matarlyst en ekki þessa miklu fíkn og hækkun í blóðþrýstingi, aukningi á hjartaáföllum og heilablóðföllum, því amfetamín er ofboðslega hættulegt efni. En það hefur ekki tekist.“

Annað sem menn hafi reynt er að búa til eftirlíkingu af hormóni sem veldur ógleði. „Þá er hugmyndin að halda mönnum hálfómótt til að koma í veg fyrir að þeir taki inn fæðu. Mér finnst það óaðlaðandi aðferð til að takast á við þetta vandamál. En síðan er það þessar skurðaðgerðir, hjáveituaðgerðir, sem úr fjarlægð virðar vera gróft inngrip. En þegar um er að ræða stóran áhættuþátt fyrir margar af erfiðustu sjúkdómum samfélagsins þá hlýtur sýnin á þessar hjáveituaðgerðir að breytast.“ Kári segir að í kjörheimi væri tekist á við á hættuna á offitu með því að láta fólk hreyfa sig, borða hollan mat, „og hugsa ekkert nema tærar, fallegar hugsanir. En það hefur reynst erfitt.“

Kári er nokkuð svartsýnn á framtíðina ef skoða á offitu í samhengi við önnur vandamál. „Ef þú tekur alla breytileika í genamenginu sem hafa áhrif á líkamsþyngd og býrð til úr því áhættumæli. Eftir því sem þú mælist með meiri erfðafræðilega áhættu á því að verða of þungur, þeim mun erfiðara áttu með að leysa vandamál í gáfnaprófum. Það er að segja, eftir því sem þú ert með meiri arfgenga áhættu á því að verða feitur, þeim mun vitlausari ertu.“ Hann leggur þó áherslu á að það megi þó alls ekki túlka þannig að þeir sem séu of þungir séu heimskir. „Það þýðir eingöngu það að þeir breytileikar í erfðamenginu sem hafa áhrif á þá hegðun sem snýr að fæðuinntekt, þeir hafa líka áhrif á alls konar aðra hluti í heila. Eftir því sem þú ert með meiri arfgenga áhættu á því að verða feitur, þeim mun meira flækist fyrir þér hugsanaleikfimi, þeim mun minni greind ertu með. Það sem meira er, eftir því sem þú ert með meiri arfgenga áhættu á því að verða of feitur, þeim mun fleiri börn áttu.“

Hvað þýðir það? „Það þýðir að það er jákvætt val fyrir offitu. Jákvætt val fyrir tilhneiginguna til að verða of feitur. Sem þýðir það að ef þú horfir heila öld fram í tímann, og við gerum ekkert í þessu, er mjög líklegt að við verðum mun þyngri en við erum í dag. Nú er ég búinn að segja líka að eftir því sem þú ert með meiri arfgenga áhættu á því að vera feitur, þeim mun vitlausari ertu, sem þýðir að það er neikvætt val gegn greind, sem þýðir að við verðum líklega vitlausari og vitlausari með hverri kynslóðinni. Þetta ósköp einfaldlega þýðir að ef það er til einhvers konar mat á því hvað er gott og vont, þá er sú hegðun sem lítur að mikilli inntekt að fæðu, frá sjónarmiði þróunarinnar er jákvæð, vegna þess að þeir sem hafa tilhneigingu til að taka inn of mikla fæðu og verða feitir, þeir eiga fleiri afkvæmi. En ef við hugsum um þetta út frá klassísku mati okkar í samfélaginu á hegðun fólks, þá er offitan að meðaltali tjáning á heldur lélegri starfsemi heilans, það er ósköp einfalt.“