Ríkisstjórnin kynnti fyrir helgi innviðauppbyggingu, en sem kunnugt er var ýmislegt sem gaf sig í fárviðrinu sem gekk yfir Ísland í desember og febrúar, þar sem veikleikar í orkukerfinu, fjarskiptakerfinu og víðar komu í ljós. Einnig var ljóst að ofanflóðavarnir voru ekki eins best verður á kosið.
Ljúka á uppbyggingu ofanflóðavarna á landinu en snjóflóðin á Flateyri og í Súgandafirði í janúar beindu sjónum að því að framlög í ofanflóðasjóð höfðu verið notuð í eitthvað allt annað og að uppbygging snjóflóðavarna væri langt á eftir áætlun. Nú á að ljúka þessu verki fyrir árið 2030.
Á næstu fimm árum verða varnir styrktar á Patreksfirði, Hnífsdal, Flateyri, Siglufirði, Seyðisfirði, Neskaupstað og Eskifirði. Á árunum 2025 til 2030 verður framkvæmdum á Flateyri og Siglufirði lokið en áfram verður unnið að vörnum á ofangreindum stöðum auk Tálknafjarðar, Bíldudals og Ólafsvíkur.
Gangi þetta allt eftir verður búið að ljúka uppbyggingu ofanflóðamannvirkja á hættusvæðum í byggð, aldarfjórðungi áður en stefndi í að óbreyttu, að því er segir að heimasíðu Stjórnarráðsins. >>