Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ofanflóðavarnir fyrir 1,3 milljarða

03.10.2019 - 12:07
Vesturbyggð Patreksfjörður
Patreksfjörður. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson
Framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Patreksfirði kosta 1,3 milljarða króna. Það er lægsta tilboðið sem barst í verkið og er hundrað milljónum hærra en áætlað var. Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til að tilboðinu verði tekið.

Í verkinu felst framkvæmd við tvo varnargarða, Mýrargarð sem verður 590 metra langur og 5 til 11 metra hár og Urðargarð sem verður 370 metra langur. Urðargarður skiptist í tvennt. Annars vegar verður 250 metra þvergarður ætlaður í að stöðva snjóflóð og hins vegar 125 metra leiðigarður til að beina flóðum út í sjó. Þá verður vatnsrás við enda Urðargarðs víkkuð og bakki hækkaður til að taka móti og stöðva grjót og aur. Framkvæmdasýsla ríkisins gerir ráð fyrir að verkinu ljúki 2026.

Hús á Patreksfirði eru nær öll á hættusvæði vegna ofanflóða og þó nokkur á hættusvæði C þar sem er mest áhætta. Líkur á að lenda í ofanflóðum þar eru þrefalt meiri en á að slasast í umferðinni.

Átján íbúar í sex húsum á Patreksfirði neyddust til  að yfirgefa heimili sín vegna óvissu um snjóflóðahættu 2016. Snjóflóð féll þá um fjörtíu metra frá húsunum sem voru rýmd. Þá fórst fernt og meira en þrettán hús urðu fyrir skemmdum í snjóflóðum á Patreksfirði 1983.

Mynd með færslu
Yfirlitsmynd þar sem ofanflóðagarðar eru merktir inn