Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ófært til Grímseyjar og skortur á vörum

28.12.2016 - 14:32
Vetur fep 2016
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Ekki hefur verið fært til Grímseyjar frá því á Þorláksmessu, hvort sem er með ferju eða flugi. Í búðinni skortir ýmsar vörur sem annars ættu að vera komnar, en þó verður hægt að sprengja gamla árið í burtu með flugeldum verði veðrið skaplegt á gamlárskvöld.

„Það átti að vera ferjuferð í dag en það fer enginn inn í höfnina eins og veðrið er núna. Þeir halda að það sé möguleiki á morgun og ætla að reyna,“ segir Anna María Sigvaldadóttir, íbúi í Grímsey sem sér auk þess um póstþjónustuna.

Jólapakkar verða nýárspakkar

Ekki var talin þörf á því að koma pósti með ferjunni til eyjunnar, þar sem útlit var fyrir að hægt yrði að fljúga með hann eins og venjulega. Það tókst þó ekki.

„Við höfum ekki fengið öll jólakort eða alla pakka. Bróðir minn hringdi í dag og spurði hvort ég hefði fengið pakkann, ég sagði við hann að líklega yrði þetta nýárspakki frekar en jólapakki,“ segir Anna María hlæjandi, enda vön ófærðinni.

Hún segir að það verði þó hægt að sprengja flugelda á gamlárskvöld, verði veðrið til friðs. Ekki er útlit fyrir sérstakt veður þar, hvorki á gamlárskvöld né nýárskvöld. „Þeir komu óvenju snemma í ár, á tveimur brettum, sem björgunarsveitin hér selur svo,“ segir Anna María.

Ætlaði að gista í tjaldi um jólin

Hún segir að eitthvað sé um það að gestir séu fastir í eynni, hafi til dæmis ætlað heim í gær eða í dag. Þeirra á meðal er útlendur ferðamaður, sem ætlaði að gista í tjaldi. Eyjaskeggjar tóku það þó ekki í mál og hann fékk inni á gistiheimilinu.

Vantar rjóma og brauð

Annar af eigendum verslunarinnar í Grímsey, Harpa Þórey Sigurðardóttir, segir að ýmislegt sé farið að vanta og þá sérstaklega fyrir áramótin.

„Staðan er bara þannig að við erum mjólkurlausar, rjómalausar og brauðlausar. Það vantar auðvitað ýmislegt en það er nú enginn svangur samt, fólk er vant þessu og er sjálft með ágætis lager. Þetta er auðvitað erfitt samt, sérstaklega á þessum tíma,“ segir Harpa Þórey.

„Enginn búinn að tapa gleðinni“

Hún vonast til þess að fá vörur með ferjunni, verði hægt að sigla inn í höfnina á morgun. „Við erum að bíða eftir grænmeti og gosi til dæmis, malti og appelsíni. Við lentum líka í þessu í fyrra og líka um páskana. Þetta er leiðinlegt en það er enginn búinn að tapa gleðinni, það eru allir kátir og glaðir í Grímsey,“ segir Harpa Þórey.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV