Ófært og hús rýmd vegna snjóflóðahættu fyrir vestan

16.03.2020 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Veðurspá er mjög slæm á Vestfjörðum en þar er appelsínugul viðvörun og óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu. Búið er að rýma tvö hús á Patreksfirði. Rúta keyrði inn í snjóflóð á Fagradal fyrir austan. Hún var að flytja starfsfólk Alcoa til vinnu á Reyðarfirði.

Á Vestfjörðum eru nær allir vegir lokaðir. Lokað er um Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði, Súgandafjörð, Klettsháls, Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán. Gemlufallsheiði er ófær vegna veðurs og það sama á við um Ísafjarðardjúp. Samkvæmt Vegagerðinni lítur ekki út fyrir að það viðri til moksturs fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudag gangi veðurspá eftir. Opið er á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar.

Fyrir sunnan er Hellisheiði lokuð vegna veðurs en reiknað með að hún verði opnuð um hádegi. Á Norðurlandi er lokað um Siglufjarðarveg og Víkurskarð. Brekknaheiði er ófær en verið er að moka.

Snjóflóðahætta á Vestfjörðum

Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Vestfjörðum og lokað er um Súðavíkurhlíð og Flateyrarveg vegna þess. Búið er að rýma tvö hús við Urðargötu á Patreksfirði sem eru inn á snjóflóðahættusvæði.

Ófærð fyrir austan og rúta keyrði inn í snjóflóð

Á Austurlandi er ófært á Fjarðarheiði, Vatnsskarði eystra og í Hróarstungu. Fagridalur er lokaður vegna snjóflóðs sem féll undir Grænafelli. Rúta keyrði inn í snjóflóðið á áttunda tímanum í morgun. Hún var að flytja starfsfólk Alcoa frá Egilsstöðum til vinnu á Reyðarfirði. Rútan er skemmd að framan en engin meiðsl urðu á farþegum og björgunarsveit flutti þá til vinnu.

Slota á fyrir norðan og austan eftir því sem líður á daginn. Það lægir hins vegar ekki á Breiðafirði, Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra þar sem gul og appelsínugul viðvörun er í gildi til 18 á morgun.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi