Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ófært fyrir lögreglu og sérsveit kölluð norður á þyrlu

29.02.2020 - 08:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögreglan á Norðurlandi eystra hefur sent frá sér tilkynningu vegna atburða sem áttu sér stað á Kópaskeri í gærkvöldi og nótt, en eins og fréttastofa greindri frá voru þrjú handtekin í þorpinu eftir líkamsárás. Fórnarlambið liggur nú á gjörgæslu á Akureyri.

Í tilkynningu lögreglu kemur fram að um klukkan 21 hafi verið tilkynnt um að maður hafi verið stunginn með hnífi í heimahúsi á Kópaskeri. Árásarmaðurinn hefði brotið sér leið inn í húsið, þar sem fyrir voru maður og kona. Konan tilkynnti um atvikið, hún var óslösuð en lýsti alvarlegum áverkum á manninum.

Á þessum tíma var slæmt veður á Kópaskeri og vegir ófærir að þorpinu. Þegar í stað var óskað eftir útkalli sérsveitar Ríkislögreglustjóra með þyrlu, auk þess sem starfsmenn Vegagerðarinnar voru ræstir út til að opna lögreglunni leið eftir veginum. Fyrstu lögreglumenn frá Akureyri og Húsavík komu á vettvang rétt fyrir klukkan 23. Læknir sinnti þá fórnarlambinu, sem var með takmarkaða meðvitund. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með sérsveitarmenn og bráðatækni frá slökviliðinu á höfuðborgarsvæðinu á Kópaskeri um rétt eftir klukkan hálf tólf. Þá var fórnarlambið flutt með þyrlunni á Sjúkrahúsið á Akureyri, liggur nú þar á gjörgæsludeild en líðan er sögð stöðug. Á meðan var reynt að upplýsa hver árásarmaðurinn væri og meintur gerandi var handtekinn um klukkan 01. Um er að ræða karlmann á fimmtugsaldri og í kjölfarið var tvennt annað handtekið. Fólkið var flutt í fangageymslu á Akureyri þar sem það bíður yfirheyrslu. 

„Málavextir í þessu máli eiga enn eftir að skýrast og frekari vettvangsrannsókn að fara fram auk þess sem metið verður hvort farið verður fram á gæsluvarðhald,“ segir í yfirlýsingu lögreglu.

Mynd með færslu
Frá vettvangi árásarinnar á Kópaskeri. Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Lögreglubíll fyrir utan húsið á Kópaskeri.
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Húsið sem um ræðir á Kópaskeri.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV