Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ófært á fjallvegum og sjór gengur á land

10.02.2020 - 13:23
Innlent · færð · Landsnet · Norðurland · RARIK · Samgöngumál · Veður
default
Það flæddi upp á bryggjur á Siglufirði í morgun Mynd: Ingvar Erlingsson
Norðan hríð er nú víða um land og fjallvegir ófærir á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hættustigi var lýst yfir í Súðavíkurhlíð og Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu.

Það er gul veðurviðvörun fyrir Vestur- og Norðurland og spáð norðan hvassvirði eða stormi með snjókomu og skafrenningi. Veðrið á þessu svæði tók að versna í gærkvöld og núna er víða mjög hvasst og mikil ófærð.

Vond færð á fjallvegum á Vestfjörðum

Á Vestfjörðum er ófært á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og Klettshálsi og verður ekki mokað fyrr en veður lagast. Þá er ófært norður Strandir. Hættustigi var lýst yfir í Súðavíkurhlíð í morgun vegna snjóflóðahættu og er hún lokuð.

Þurftu að aðstoða ökumann í Ólafsfjarðarmúla

Á Norðurlandi er Þverárfjall lokað vegna veðurs og leiðin milli Ketiláss og Siglufjarðar er lokuð vegna snjóflóðahættu. Í Ólafsfjarðarmúla er hættuástand vegna snjóflóðahættu og Víkurskarð er lokað vegna veðurs. Björgunarsveitin á Dalvík kom ökumanni til hjálpar í Ólafsfjarðarmúla í nótt en hann hafði fest bílinn á leiðinni milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. En þar sem vegir eru færir eru víða vond akstursskilyrði, skafrenningur og hálka.

Rafmagnstruflanir á Norðausturlandi 

Snemma í morgun kom upp bilun í Kópaskerslínu og Þeistareykjalínu og rafmagn fór þá af í Kelduhverfi, Öxarfirði og á Melrakkasléttu. Þannig varð rafmagnslaust á Kópaskeri, Raufarhöfn og Þórshöfn. Þetta hafði áhrif á útsendingar útvarps og sjónvarps á þessu sama svæði. Þessi bilun reyndist í tengibúnaði við Laxá og viðgerð var að ljúka þegar rætt var við svæðisvakt RARIK kl. 13:25.

Há sjávarstaða og sjór gengur á land

Og í norðan rokinu gengur sjór á land og þurfti að loka Strandvegi á Sauðárkróki vegna þess. Þar gengur sjór yfir varnargarð og er fólk beðið að vera ekki á ferðinni á Strandvegi frá Hegrabraut að hringtorginu á Eyrinni þar til aðstæður batna. Þá flýtur yfir bryggjur á Siglufirði og á Húsavík er fylgst með sjóganginum. Þetta myndband birti Yann Kolbeinsson á Facebook og sýnir það vel hvernig ástandið var í Húsavíkurhöfn í morgun. Sjávarstaðan var hæst um hádegisbil.