Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Of snemmt að segja að gosi sé lokið

27.02.2015 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir of snemmt að segja til um hvort gosinu í Holuhrauni sé lokið þótt lítil virkni sjáist nú í eldstöðinni. Vinna þurfi frekar úr gögnum áður en hægt sé að slá því föstu.

Þyrlu Landhelgisgæslunnar var í kvöld flogið yfir eldstöðina með vísindamenn til að kanna aðstæður. Víðir segir að teknar hafi verið myndir sem verði skoðaðar þegar vísindamannaráð kemur saman til að fara yfir stöðuna í fyrramálið. 

Dregið hefur verulega úr hraunflæði og á myndbandi sem Gísli Gíslason, þyrluflugmaður hjá Norðurflugi, tók í dag er enga glóð að sjá á yfirburði gígsins.

Mjög illa hefur sést til gosstöðvanna síðustu daga vegna veðurs. Skjálftavirkni í Bárðarbungu er minni en áður og ekki hefur mælst stærri skjálfti en 3 í sex daga. Um 50 skjálftar hafa mælst í jöklinum frá því á þriðjudag og um 60 í kvikuganginum. Þá hafa mælst skjálftar við Öskju og Herðubreið og í Tungnafellsjökli.

Í tilkynningu frá vísindamannaráði Almannavarna kemur fram að það sé mjög háð veðri hve margir skjálftar mælast á svæðinu. Bárðarbunga sígur nú um 5 sentimetra á dag en þegar sigið var mest var það um 50 sentimetrar á dag eða tíu sinnum meira en nú. GPS mælar sýna enn hægar færslur í átt að Bárðarbungu sem þykir benda til þess að enn flæði kvika undan Bárðarbungu.