Ólafur sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að segir að áður hafi ágreiningur innan flokka ekki verið gerður opinber en staðan sé önnur í dag.
„Við sjáum frekar opin átök og gagnrýni manna á eigin flokk ef þeir eru ósáttir,“ segir Ólafur og bendir á að þeir sem eru mest áberandi í andófinu séu af eldri kynslóð Sjálfstæðismanna. Það komi ekki að óvart; Þeir sem hallist að þjóðernishyggju og andófi gegn forystunni séu oft eldri karlmenn. Til dæmis sé það áberandi í Evrópu og Bandaríkjunum.
Að sögn Ólafs ríma röksemdir gegn þriðja orkupakkanum oft við almennar röksemdir gegn aðildinni að EES-samstarfinu. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafi lagt mikla áherslu á að tala vel um EES-samninginn og leggja áherslu á að það yrði mikið ólán ef Íslendingar gengju úr samstarfinu.
Ólafur gerir þó ráð fyrir að þriðji orkupakkinn verði samþykktur. Ef nægar undirskriftir safnast til að setja málið í atkvæðagreiðslu innan flokksins væri það „óþægilegt fyrir flokkinn“.
„Eftir á að hyggja finnst manni dálítið skrýtið að Sjálfstæðismennirnir hafi ekki keyrt á að samþykkja þetta fyrir sumarfrí. Í staðinn hefur þetta fengið að malla og í rauninni má gera ráð fyrir því að það hafi verið það sem Miðflokksmenn stefndu að,“ segir Ólafur.