Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Óeðlilegt að fylgja stefnu fyrri stjórnar

09.12.2013 - 09:09
Mynd með færslu
 Mynd:
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, segir að það sé óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar sem hafi hækkað barnabætur um 24 prósent. Vigdís og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, voru gestir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Rætt var um fyrirætlan stjórnvalda að lækka vaxta- og barnabætur um alls 600 milljónir króna og skera niður þróunaraðstoð um hundruð milljóna króna.  

„Það þarf að finna aukið fé til heilbrigðismála og þetta er sú aðferð sem við ætlum meðal annars að ganga í til þess að forgangsraða í þágu heilbrigðis landsmanna,“ segir Vigdís.

Vigdís var spurð hvort ekki væri verið að höggva þar sem hlífa skyldi, þetta væru þeir sem hefðu minnst á milli handanna og þróunaraðstoð við fátækasta fólk í heimi. „Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“

Katrín er ósammála því að sækja fjármuni í heilbrigðiskerfið í bótakerfið og þróunaraðstoð, þó hún taki undir það að bæta þurfi fjármagni í heilbrigðiskerfið. „Fráfarandi ríkisstjórn byrjaði á því á þessu ári að bæta inn í heilbrigðiskerfið. Ég verð að segja að ég er mjög ánægð með yfirlýsingu Vigdísar að þetta lýsi ólíkum stefnum fyrrverandi ríkisstjórnar og þeirrar sem nú er.“