Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Oddný nýr formaður: Finn fyrir ábyrgð

03.06.2016 - 17:37
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Oddný G. Harðardóttir alþingismaður hefur verið kjörin formaður Samfylkingarinnar. Hún tekur við embættinu af Árna Páli Árnasyni. Oddný fékk tæp 60 prósent í kosningunum. Hún sagðist í sigurræðu sinni finna fyrir ábyrgð á þessari stundu. „Ég þakka traustið, það geri ég innilega.“ Hún þakkaði þeim sem studdu hana og lofaði hinum samvinnu og sátt.

Landsfundur Samfylkingarinnar stendur nú yfir. Formannskosningu lauk á hádegi og höfðu rúmlega 3.800 tekið þátt í kosningunni rétt fyrir hádegi. Páll Halldórsson, formaður kjörstjórnar, upplýsti að Magnús Orri Schram hefði hafnað í öðru sæti, Helgi Hjörvar í því þriðja og Guðmundur Ari varð fjórði. 

Oddný sagðist umfram allt finna fyrir ábyrgð. Hún væri bjartsýn fyrir hönd Samfylkingarinnar því að jafnaðarmannastefnan ætti framtíðina fyrir sér. Hún þakkaði mótframbjóðendum sínum fyrir samveruna að undanförnu og vonaðist til að allt það góða fólk sem hefði unnið með þeim myndi nú leggjast á eitt. „Framganga þeirra á stundum hefur verið þannig að ég hef verið í miklum vandræðum. Þarna fer fólk sem ég væri reiðubúin til að kjósa sjálf.“

Oddný sagði að Samfylkingin ætti að vera öðrum fyrirmynd í framgöngu og framkomu hvert við annað. „Við viljum eitt samfélag fyrir alla,“ sagði Oddný, þar sem spilling og græðgi væri fordæmd. 

Hún sagði að Samfylkingin myndi leita samstarfs við verkalýðshreyfinguna og almannaheillasamtök sem flokkurinn ætti samleið með. „Brettum upp ermar, það er ekki eftir neinu að bíða. Vörpum í framkvæmd 130 daga áætlun fyrir kosningar, við í Samfylkingunni erum til í slaginn.“

Oddný kallaði síðan hina frambjóðendurna upp á svið. Guðmundur Ari Sigurjónsson sló á létta strengi og sagði að sinn tími myndi koma. Magnús Orri Schram fékk landsfundargesti til að hrópa húrra fyrir nýjum formanni og Helgi Hjörvar þakkaði öllum fyrir drengilega keppni.