Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Óboðleg vinnubrögð

15.03.2016 - 09:24
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, heyrði hugmynd forsætisráðherra um staðsetningu Landspítalans á Vífilsstöðum í fyrsta sinn í fjölmiðlum á föstudaginn. Hann gagnrýnir Framsóknarflokkinn harðlega fyrir vinnubrögðin og segir þau ekki boðleg.

Kristján Þór var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur lýst þeirri skoðun sinni að Landspítalinn eigi að rísa annars staðar en við Hringbraut og á föstudaginn nefndi hann Vífilsstaði sem mögulega staðsetningu. Kristján Þór segir að hann sé ekki talsmaður þess að réttkjörinn stjórnvöld í landinu séu að þrasa opinberlega um mál án þess að hafa rætt þau sín á milli.

„Ég meina ég heyrði fyrst af þessu máli um Vífilsstaði í fjölmiðlum á föstudaginn. Fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins heyrði það sömuleiðis í fyrsta skipti á föstudaginn. Þetta eru ekki vinnubrögð til fyrirmyndar bara svo það sé sagt það er einfaldlega mín skoðun.“ 

Sigmar:  Og í því felst náttúrlega svolítið hörð gagnrýni á samstarfsflokkinn?   Kristján Þór: Bæði hann og mig, við eigum bara að vinna með öðrum hætti heldur en þessum.“  

Kristján Þór segir ennfremur að það sé ekkert óeðlilegt þó það komi upp skiptar skoðanir og ágreiningur öðru hvoru. 

„En það er ekki boðlegt í mínum huga þegar við erum með svona stórt mál undir með mjög viðkvæma stöðu uppi í þessum tiltekna málaflokki sem að heilbrigðismálin eru. Við sjáum þess ágætlega stað í því ákalli sem að almenningur í þessu landi er að senda stjórnmálum ekki bara ríkistjórninni heldur Alþingi öllu. Áttatíu og fimm þúsund manns eru búin að kalla eftir því að við stöndum betur vörð um heilbrigðismálin í þessu þjóðfélagi, þá er það ekki boðlegt í mínum huga að við skulum bera hlutina fram svona eins og við erum að gera og ég fría mig sjálfan ekki ábyrgð í þeim efnum.“

Kristján Þór segir að stjórnvöld séu að byrja að svara ákallinu.  

Forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að vorið 2014 hefði ekki verið samþykkt að byggja upp nýjan Landspítala við Hringbraut. Það hafi vissulega verið upphaflega tillagan en ekki hafi náðst samstaða um hana vegna þess að menn hafi ólíkar skoðanir. Þess vegna hafi verið ákveðið að sammælast frekar um það að ráðast í nauðsynlegar endurbætur á meðan menn meta aðra kosti. Þessi ummæli eru þvert á það sem heilbrigðisráðherra og starfsmenn Landspítala segja.   

Heilbrigðisráðherra segir að það sé alveg öruggt að Landspítalinn verði við Hringbraut. Alþingi hafi tekið þá ákvörðun með lögum árið 2010, sem síðan var aftur staðfest í lögum árið 2013.  

„Síðan gerir Alþingi sérstaka ályktun 2014. Við höfum séð þessu verkefni stað sem betur fer í fjárlögum árið 2014,  2015 og 2016 og þetta verkefni er inn í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2015 til 2019. Þannig að við erum byrjuð, framkvæmdir eru hafnar.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV