Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Óásættanlegur árangur í biðlistaátaki

23.05.2019 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Biðtími eftir liðskiptum er enn langt umfram viðmið, að því er fram kemur í greinargerð Landlæknis. Heilbrigðisráðherra segir árangurinn óásættanlegan. Alma Möller, landlæknir stingur upp á því að bjóða þjónustuna út ef ekki næst að leysa fráflæðisvanda Landspítalans.

„Ég myndi helst vilja sjá að það væri hægt að auka fjölda aðgerða á Landspítala en til þess þarf að létta af landspítala umönnun sjúklinga sem hafa lokið meðferð þar og eru að bíða eftir öðrum úrræðum,“ segir Alma. „Ef að það dugar ekki til þá mætti hugsa sér að bjóða þessa þjónustu út.“

Ekki til viðbótar fé

Heilbrigðisráðherra segir að heilbrigðisyfirvöld þurfi að fara vel yfir það þegar tiltekin þjónusta er boðin út. „Að það valdi ekki skekkju í því kerfi sem að fyrir er. Við þurfum að meta það hvaða áhrif slík ákvörðun myndi hafa,“ segir Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra. „Síðan er það þannig að á yfirstandandi ári er ekkert viðbótar fé til að ráðast í neinar slíkar aðgerðir.“

Í áliti landlæknis er lagt til að fela til þess bærum aðilum að reka hjúkrunarrými, að minnsta kosti til bráðabirgða með því að bjóða út rekstur þeirra. Til að létta á Landspítalanum. „Það er eitt af því sem við horfum til. Þegar landlæknir segir að það séu fleiri þættir þjónustunnar sem mögulega sé hægt að bjóða út heldur en mögulega þessi þáttur þá þurfum við líka að taka þær ábendingar alvarlega og fara yfir þær,“ segir Svandís jafnframt.

Eftirspurn eftir aðgerðum aukist hratt

Biðlistaátak liðskiptaaðgerða hófst árið 2016 og ráðuneytið hefur varið 840 milljónum í átakið á ári.  Í áliti Landlæknis kemur fram að þörf fyrir liðskiptaaðgerðir hafi verið vanmetin í upphafi átaksins. Eftirspurn eftir aðgerðunum hefur aukist hraðar en reiknað var með. „Aðgerðum hefur fjölgað umtalsvert. Það má segja að það hafi náðst árangur þó að árangurinn sé ekki ásættanlegur af átakinu á þessum þremur árum,“ segir Svandís.

Þrjú sjúkrahús sinna liðskiptum. Biðtími eftir liðskiptaaðgerð var á síðasta ári tuttugu til sextíu vikur eftir sjúkrahúsum. Bið eftir liðskiptum á hnjám er hins vegar lengri, sérstaklega á Landspítalanum eða allt að 36 vikur.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Landlæknir fer yfir úttekt á átakinu.
holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV