Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Óánægja með bílarekstur ríkislögreglustjóra

05.06.2019 - 19:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Dómsmálaráðuneytið hefur rekstur ríkislögreglustjóra á lögreglubílum til skoðunar. Óánægja er innan lögreglunnar vegna reksturins og hvatt hefur verið til þess að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður. Allir lögreglustjórar landsins ætla að funda með ríkislögreglustjóra vegna málsins á föstudag.

Ríkislögreglustjóri rekur bílamiðstöð lögreglunnar og ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og endurnýjun allra ökutækja lögreglu ásamt öllum búnaði, en lögregluembættin leigja bílana af ríkislögreglustjóra. Alls rekur bílamiðstöðin um 120 ökutæki. Samkvæmt heimildum fréttastofu er talsverð óánægja innan lögreglunnar með rekstur bílamiðstöðvarinnar og hefur verið um nokkra hríð. Sum lögregluembættin hafa farið þá leið að taka bíla á leigu, sem hefur reynst ódýrara en að leigja af bílamiðstöðinni. 

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að fundað verði um málið með ríkislögreglustjóra á föstudag , um hvort tilefni sé til að breyta fyrirkomulaginu á rekstri lögreglubíla, með hagkvæmni að leiðarljósi. Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig vegna málsins.

Dómsmálaráðuneytið skoðar fyrirkomulagið við rekstur bílanna

Dómsmálaráðuneytið staðfestir að það hefur fyrirkomulagið til skoðunar. Ráðuneytið tjáir sig aftur á móti ekki um hvort það hafi til meðferðar kvörtunarmál vegna starfa ríkislögreglustjóra. 

Lögreglufélag Norðurlands vestra sendi frá sér ályktun síðdegis um að það styðji hugmyndir þess efnis að lögreglustjórar sjái sjálfir um rekstur lögreglubíla og að bílamiðstöð ríkislögreglustjóra verði lögð niður. Þá kvartar lögreglufélagið jafnframt undan áralöngum vandræðum við að fá fatnað frá ríkislögreglustjóra. Lögreglustjórar kaupi sjálfir föt á lögreglumenn án útboða. 

Heimildir fréttastofu herma að nokkur óreiða hafi verið á fjármálum hjá embætti ríkislögreglustjóra. Lögreglustjórar hafi ekki fengið að sjá bókhald bílamiðstöðvarinnar, þrátt fyrir óskir þar um. Um gríðarlega fjármuni er að ræða en árleg velta bílamiðstöðvar hleypur á hundruðum milljóna króna.

Ekki fékkst upp gefið hjá ríkisendurskoðanda hvort rekstur bílamiðstöðvarinnar eða fjármál ríkislögreglustjóra væru til skoðunar.

Allir fjármuni hafi farið í rekstur bílamiðstöðvarinnar

Ríkislögreglustjóri gat ekki veitt viðtal vegna málsins að svo stöddu. Í skriflegu svari frá Jónasi Inga Péturssyni, framkvæmdastjóra rekstrar hjá ríkislögreglustjóra, segir að gjaldinu sem embættin greiða til ríkislögreglustjóra sé ætlað að standa undir öllum rekstri varðandi ökutækin, svo sem dekkjaskipta, eldsneytiskostnaði, tryggingum o.þ.h. Gjaldið nái einnig til annars kostnaðar við rekstur bílamiðstöðvar, eins og launakostnað starfsmanna, húsaleigu o.fl. Þá sé gjaldinu ætlað að standa undir endurstofnverði nýrra tækja. Velta bílamiðstöðvarinnar sé um 500 milljónir króna á ári. Bílamiðstöðin sé ekki rekin með tapi.

Aðspurður segir Jónas Ingi að engir fjármunir, sem lögregluembættin greiða ríkislögreglustjóra fyrir rekstur bifreiðanna, hafi farið í önnur verkefni en rekstur bílamiðstöðvarinnar.

Jónas Ingi segir að ríkislögreglustjóri, dómsmálaráðuneytið og lögreglustjórar hafi haft reksturinn til skoðunar undanfarna mánuði. Embætti ríkislögreglustjóra hafi fundað með fulltrúum dómsmálaráðuneytisins í síðustu viku. Í kjölfarið boðaði ríkislögreglustjóri lögreglustjóra á landinu til fundar á föstudag til þess að fara yfir stöðu mála. 

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV