Nýttu tímann í dag á meðan vel viðraði

18.01.2020 - 17:04
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Tíminn var vel nýttur á Flateyri í dag við hreinsun úr höfninni. Þar eru sex bátar sem þarf að ná upp eftir snjóflóðið á þriðjudagskvöld. Gott veður var í dag en spáð er vonskuveðri seint í kvöld.

„Í gær vorum við að staðsetja allt sem hafði farið á sjávarbotninn í höfninni og þrívíddarmynda þetta til að sjá hvernig þetta liggur og hvernig botninn er og allt þetta rusl er, svo að við getum undirbúið betur,“ segir Kjartan Hauksson, stjórnandi köfunaraðgerða í höfninni á Flateyri. 

Flóðið fór yfir sex báta en auk þeirra er líka rusl í höfninni vegna flóðsins. Bátarnir eru í forgangi. 

Fréttir bárust af því að flóðið hafi hrifið með sér olíutanka út í sjó. Kjartan segir að í myndatökum hafi ekki orðið vart við tankana. „En það var svolítill ís í höfninni í gær sem að reyndar er farinn núna. En við gátum ekki skoðað alveg allt svæðið, út af ís.“

Í dag einbeittu björgunaraðilar sér að því að bjarga fyrsta plastbátnum og var stefnt að því að koma honum á land í dag. Því var ekki lokið um klukkan 17:00. Kjartan segir að það sé verkefni dagsins. 

Mynd með færslu
Kjartan Hauksson, stjórnandi köfunaraðgerða. Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Aðspurður að því hvað það taki langan tíma að ná hverjum bát upp segir hann það misjafnt eftir ástandi þeirra, hvort hægt sé að fleyta þeim upp og dæla úr þeim og hvort þeir haldi sjó. Veðrið sé líka óvissuþáttur. „Það er góð spá í dag og við ætlum að nýta það vel en óvíst með morgundaginn og næstu dagar eru eitthvað krítískir líka. Þetta er auðvitað bara þessi árstími þannig að það er erfitt að segja en við munum nýta þennan dag vel í dag,“ sagði Kjartan í viðtali í morgun. 

Kjartan segir að töf á björgun hafi ekki teljandi áhrif á bátana. Þetta sé því ekki dagaspursmál. Aðalatriðið sé að vinna þetta á öruggan máta bæði fyrir fólk og náttúruna. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi