Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýtt tveggja ára nám í hjúkrunarfræði

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Nýtt grunnnám í hjúkrunarfræði fer af stað við Háskóla Íslands í haust. Hjúkrunarfræðingar og nemar segja að verið sé að gjaldfella hið hefðbundna nám í hjúkrunarfræði. Deildarforseti segir hvergi slegið af í kröfunum, námið eigi að svara eftirspurn.

Námið, sem lýkur með BS-gráðu, er til tveggja ára og hugsað fyrir fólk sem hefur lokið öðru háskólanámi. Það er tekið á tveimur 11 mánaða skólaárum og að því loknu bæta nemendur við sig klínískum námsstundum, allt að fjórum mánuðum. Herdís Sveinsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands, segir að verið sé að svara eftirspurn; „Nútíminn í dag er þannig að fólk skiptir um starfsvettvang. Það er ekki bundið í sama starfinu ævilangt.“ Eins sé mikill skortur á hjúkrunarfræðingum til starfa og ástandið erfitt eins og flestir viti. 

Að erlendri fyrirmynd

Hugmyndin hafi fyrst komið fram vegna þess að á geðsviði Landspítalans hafi starfað margir sálfræðingar með BS-próf, þeir séu ófaglærðir því gráðan veiti ekki réttindi og lendi því á vegg. Sú hugmynd hafi því komið upp um að slík námsleið myndi nýtast vel. Sams konar námsleið sé ein sú mest vaxandi í Bandaríkjunum og hafi reynst vel.

15-20 manns komast í námið í haust. Umsækjendur þurfa að hafa lokið 40 einingum í grunnnámskeiðum en um 100 manns hafa sótt um að komast á slík námskeið í vor. Herdís segir þann fjölda þó ekki endanlegan því frestur til að greiða staðfestingargjald sé ekki runninn út, ljóst sé að sú tala verði töluvert lægri. Fljótt á litið virðist mestur áhugi frá fólki úr félagsfræði og sálfræði. 

Námsleiðin á pari við hefðbundið grunnnám

Hjúkrunarfræðingar og nemar hafa gagnrýnt þessa nýju námsleið og segja að verið sé að gjaldfella hefðbundna grunnnámið, sem er 240 einingar til fjögurra ára. Herdís segist skilja allar þessar raddir, það sé hins vegar hvergi slegið af; „Einingalega er þetta algjörlega sambærilegt við nám í hjúkrunarfræði. Við fylgjum Evróputilskipun og þau þurfa að uppfylla allt það sama og sömu kröfur enda er hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands ekki þekkt fyrir að slá af kröfum“. Ný námsleið er 180 einingar, því til viðbótar þurfa umsækjendur að hafa lokið 40 einingum í grunnnámi. Þá eru lokaverkefni metin þar sem þau nýtast þvert á námsgreinar ásamt vali. 

Ekki verið að taka pláss frá öðrum

Óánægju hefur gætt meðal hjúkrunarfræðinema sem keppast um að komast í gegnum klásus. Þá þurfa rúmlega 20 manns sem náðu prófum í Háskólanum á Akureyri frá að hverfa vegna fjöldatakmörkunar á sama tíma og þetta nýja nám er auglýst. Ástæða fyrir fjöldatakmörkunum er meðal annars sögð fjárskortur og skortur á klínískum námsplássum. Herdís segist vel skilja að nemar séu ósáttir og spyrji þessarar gildu spurninga. Hún segir lítið fjármagn hafa komið frá Háskóla Íslands ætlað fyrir undirbúningsvinnu, annars eigi námið að standa undir sér. Ekkert fjármagn hafi komið frá ráðuneytunum svo hún viti. 

Þá sé ekki verið að bæta við klínískum námsplássum fyrir þennan nýja hóp heldur sé námsárið skipulagt öðruvísi; „Það er verið að nýta dauðan tíma á spítölunum, þann tíma sem hefðbundnir háskólanemar eru í prófum þannig að það er ekki verið að taka nein námspláss frá ungu fólki“. Það sé verið að reyna að nýta allar holur með þessari nýju námsleið.
 

Leitað leiða til að bregðast við skorti

Ný nefnd á vegum ráðuneytisins á að skoða leiðir til þess að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum og vonast Herdís eftir virkri aðgerðaráætlun úr því starfi.  „Ég þekki eiginlega ekki neinn hjúkrunarfræðing sem hefur farið úr starfi með sjúklingum sem vill ekki fara til baka aftur“ Þegar aðstæður verði hins vegar þannig að það samræmist ekki fjölskyldulífi og öðru þá leiti fólk í önnur störf. Hún segir starfið skemmtilegt, gefandi og ögrandi og það sé mjög leitt að hjúkrunarfræðingar sjái sig knúna til að leita á önnur mið.