Nýtt þjóðleikhúsráð hefur störf á morgun

30.06.2019 - 20:26
Þjóðleikhúsið við Hverfisgötu.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað þjóðleikhúsráð til næstu fjögurra ára. Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri og rithöfundur, verður formaður ráðsins. Fyrr í mánuðinum sögðu allir fulltrúar ráðsins af sér. Var það gert svo umsóknarferli um starf þjóðleikhússtjóra væri hafið yfir allan vafa um mögulegt vanhæfi einstakra fulltrúa í ráðinu en staða þjóðleikhússtjóra er nú laus til umsóknar. 

Samkvæmt leiklistarlögum er þjóðleikhúsráð skipað fimm mönnum. Ráðherra skipar formann og varaformann úr hópi ráðsmanna en Félag íslenskra leikara tilnefnir einn fulltrúa og Félag leikstjóra á Íslandi annan. Þá eru þrír skipaðir án tilnefningar.

Auk Halldórs sitja í ráðinu Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir framkvæmdastjóri, varaformaður ráðsins skipuð án tilnefningar, Pétur Gunnarsson rithöfundur, skipaður án tilnefningar, Sigmundur Örn Arngrímsson leikari, tilnefndur af Félagi íslenskra leikara, og Fríða Björk Ingvarsdóttir rektor Listaháskóla Íslands, tilnefnd af Félagi leikstjóra á Íslandi. Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. 

Nýtt þjóðleikhúsráð mun starfa frá og með morgundeginum en það mun meta hæfi umsækjenda og starfa með þjóðleikhússtjóra til næstu fjögurra ára.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi