Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Nýtt skotíþróttahús á Ísafirði

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV

Nýtt skotíþróttahús á Ísafirði

01.02.2016 - 10:05
Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar tók nýlega í notkun skotíþróttahús á Ísafirði. Fyrri aðstaða var utandyra og þangað var oft ófært stóran hluta úr ári.

Áhugafólki um skotíþróttir gafst í gær kostur á að skoða nýja aðstöðu skotíþróttafélagsins á Ísafirði. Guðmundur Valdimarsson er formaður Skotíþróttafélags Ísafjarðarbæjar: „Okkar skotsvæði er og hefur verið uppi á Dagverðardal sem er uppi á heiði í 300 metra hæð svo þetta er alltaf ófært á veturna. Í júlí á síðasta ári, gátum við loksins notað svæðið. Það breytir öllu fyrir okkur að komast hingað inn.“

 Aðstaðan er undir áhorfendastúku við fótboltavöllinn á Ísafirði sem félagið byggði í samstarfi við knattspyrnudeild bæjarins. Í skotíþróttafélaginu eru um 185 meðlimir og hafa margir lagt hönd á plóg við að fullgera aðstöðuna, með peningastyrkjum sem og sjálfboðavinnu. Guðmundur telur að um þriðjungur félagsmanna stundi æfingar en það muni breytast með bættri aðstöðu: „Þetta kemur til með að auka félagsstarfið gífurlega og takmarkið er að vera hérna með gott barna- og unglingastarf, sérstaklega í bogfiminni,“ segir Guðmundur.

Félagið keypti einnig nýlega löggildan keppnisbúnað, sem má nota fyrir allar keppnisgreinar. Guðmundur segir mikla breytingu verða fyrir félagana með tilkomu búnaðarins. „Þegar við vorum að fara að suður að keppa, þá var eiginlega eina æfingin okkar daginn fyrir mót. Þetta skiptir mjög miklu máli fyrir árangur.“