Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Nýtt fjárlagafrumvarp er niðurstaðan

27.11.2017 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Formenn tilvonandi stjórnarandstöðuflokka tjáðu formönnum stjórnarmyndunarflokkanna það á fundi nú á þriðja tímanum að þeir vildu að lagt yrði fram nýtt fjárlagafrumvarp, samið frá grunni, jafnvel þótt það þýddi að þing kæmi saman seinna en ella. Hin hugmyndin var að leggja fjárlagafrumvarp fráfarandi ríkisstjórnar fram aftur með breytingartillögum.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir að kynntar hafi verið tvær mögulegar leiðir fyrir tilvonandi stjórnarandstöðuflokkum: annars vegar að leggja fram gamla fjárlagafrumvarpið með nýjum formála og samhliða því breytingartillögur við frumvarpið og hins vegar að leggja fram spánnýtt frumvarp. Tekið var fram að seinni leiðin gæti þýtt að þingsetning gæti tafist fram í miðjan desember.

Formenn tilvonandi stjórnarandstöðuflokka voru þeirrar skoðunar að það væri affarasælla að leggja fram nýtt frumvarp. „Það er allt í lagi okkar vegna,“ segir Katrín.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV