Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Nytsamleg en þreytt goðsögn

Mynd: Sögufélag / Einka

Nytsamleg en þreytt goðsögn

05.11.2018 - 12:52

Höfundar

„Þetta er náttúrulega skemmtileg saga. Við erum hrifin af og höldum með Öskubusku,“ segir sagnfræðingurinn Axel Kristinsson um það sem hann kallar goðsögnina um aldalanga hnignun Íslands á tímabilinu 1400 til 1800. Axel sendi nýlega frá sér bókina Hingnun, hvaða hnignun?

Í bókinni skoðar Axel Íslandssöguna á fjögurra alda tímabili, árin frá 1400-1800 og veltir fyrir sér því sem hann kallar goðsögnina um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Oft og iðulega er látið í það skína að Íslendingar hafi öldum saman verið allra þjóða fátækastir, undir verslunar ánauð og kúgun ýmis konar. Þjóðveldistíminn hafi verið gullöld og Íslendingar ekki almennilega rétt úr kútnum fyrr en með sjálfstæðisbaráttunni. Axel segir þetta goðsögn sem sannfærði Íslendinga um að dönsk stjörn hefði reynst þjóðinnni ákaflega óheillavænleg og var nýtt til að ýta undir hugmyndir um stefna ætti að sjálfstæði þjóðarinnar.

Axel heldur því fram að þetta séð goðsagnasmíð sjálfstæðisbaráttunnar sem við lifum ennþá nokkuð gagnrýnislaust með og stjórnmálamenn endurómi aftur og aftur. Snemma í bókinni segir hann þetta:

Flökkusögnin, eins og hún birtist hjá þessum stjórnmálamönnum er sem sagt Öskubuskusaga; saga um það hvernig fátæka systirin reis úr öskustónni og varð „Ísland, best í heimi“ eins og landsmenn segja stundum í mismiklum hálfkæringi.

Öskubusku líkingin hefur verið gagnleg. „Þetta er klassísk saga sem fólk tengir við. Það er gott að vera Öskubuska, svona eftir á alla vega.“

Fátækasta þjóðin

Oft er látið að því liggja að um aldamótin 1900 hafi Íslendingar verið allra þjóða fátækastir. „Ef við miðum við landsframleiðslu á mann, sem er einn mælikvarði en kannski ekki algildur, þá er Ísland svona um miðjan hóp eða heldur fyrir heðan miðju. Á botninum eru þá löndin sem voru undir Tyrkjaveldi en Ísland er á svipuðum stað og mörg löndin í Mið-, Austur- og Suður-Evrópu, en heldur á eftir iðnvæddustu ríkjunum eins og Bretlandi, Frakklandi og Danmörku. Ef við horfum hins vegar á allan heiminn þá er Ísland í rauninni bara ríkt land.“

Réttlæting sjálfstæðisins

„Þegar Íslendingar þurftu að trúa því að þeir ættu að vera sjálfstæðir þá blasir það eiginlega við að tímabil erlendra yfirráða varð að vera frekar slæmt tímabil,“ segir Axel. „Sannleikurinn er held ég talsvert annar og flóknari. Það er enginn að halda því fram að hér hafi allt verið í fína lagi en að halda því fram að lífskjör almennings hafi verri hér en í öðrum löndum er frekar hæpið.“

Axel segir þessa lífseigu goðsögn vera búna að grafa svo rækilega um sig í hugum landsmanna að erfitt hafi reynst að uppræta hana.  „Það er dálítið erfitt að segja skilið við eitthvað sem að virkar. Þannig að í endurnýjuðum útfærslum af goðsögninni hafa menn týnt ýmislegt annað til en bara kúgun Dana yfir landsmönnum,“ segir Axel og bendir á að menning og söguskoðun sé aðlögunarhæf og geti stýrt hegðun fólks rétt eins og gen geta gert í tilviki einstaklingsins. Menn hafa til dæmis bent á gróðureyðingu sem forsendu hnignunarinnar til að styðja við hugmyndir um mikilvægi landgræðslu og einnig hafi meint hnignun verið talin merki um mikilvægi athafnafrelsis, þegar það hefur átt að undirstrika.  

Axel er einnig gagnrýnin á það þegar stjórnmálamenn tala um lærdóma sögunnar. „Ég hef tilhneigingu til að taka því með miklum fyrirvara þegar fólk segir: „Við eigum að læra þetta eða hitt af sögunni.“ Þá eru menn yfirleitt búnir að ákvaða hver sá lærdómur eigi að vera. Ég sem sagnfræðingur vil helst bara að við reynum að skilja söguna heldur en að læra af henni.“

Viðtalið við Axel Kristinsson um bókina Hnignun, hvað hnignun? úr Víðsjá á Rás 1 má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan. Tónlistin í innslaginu er frá fjölskylduhljómsveitinni Spilmenn Ríkínís.