Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýr vegarkafli um Berufjarðarbotn vígður

14.08.2019 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: Vegagerðin - Aðsend mynd
Bundið slitlag er nú komið á allan Hringveginn eftir að nýr vegarkafli um Berufjarðarbotn var vígður í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, klippti á borða af því tilefni. Vegurinn styttir Hringveginn um 3,6 kílómetra.

Vegurinn er 4,9 kílómetra langur. Þar af liggur einn kílómetri yfir sjó og um leirur. Undirbúningur vegagerðarinnar hófst árið 2007. Skiptar skoðanir voru um leiðir um Berufjarðarbotn sem seinkaði nokkuð undirbúningi verksins, en niðurstaðan var þessi nýi vegkafli sem nú er tekinn í notkun, að því er segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Áætlað var að heildarkostnaður við veginn yrði 1.270 milljónir króna. Í tilkynningu Vegagerðarinnar segir að gera megi ráð fyrir að endanlegur kostnaður verði um 1.620 milljónir. Sá viðbótarkostnaður kemur að mestu til vegna viðbótarfyllinga.