Nýr sérkjarasamningur við PCC undirritaður

06.06.2019 - 09:47
Innlent · Kjaramál · Norðurland · PCC
Mynd með færslu
Fulltrúar Framsýnar og PCC, Aðalsteinn Á. Baldursson og Steinþór Þórðarson Mynd: framsyn.is
Undirritaður hefur verið nýr sérkjarasamningur fyrir starfsmenn í kisilveri PCC á Bakka. Samningurinn var undirritaður í gærkvöld í húsnæði Samtaka atvinnulífsins. Viðræður um nýjan samning hafa staðið yfir frá áramótum.

Sérkjarasamningurinn er milli Framsýnar stéttarfélags og Þingiðnar, félags iðnaðarmanna í Þingeyjarsýslum, annarsvegar og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd PCC BakkiSilicon, hinsvegar.

Í yfirlýsingu sem gefin var út í kjölfar undirritunarinnar segir að samningurinn byggi á Lífskjarasamningnum sem undirritaður var 3. apríl, meðal annars hvað varðar launabreytingar, forsendur og styttingu vinnutíma. „Tekið er upp nýtt launakerfi sem byggir á starfsaldri, hæfni í starfi og skiptingu ávinnings vegna bættrar framleiðslu, aukinna gæða og annarra þátta sem áhrif geta haft á rekstur fyrirtækisins og vinnuumhverfi starfsmanna. Þá verður einnig lögð áhersla á frekari starfsþjálfun á vinnustað og að starfsmenn geti stöðugt aukið við færni sína og þekkingu‟.

Sérkjarasamningur fyrir verksmiðju PCC, sem tók gildi í mars í fyrra, rann út um áramót. Síðan þá hafa staðið yfir viðræður um nýjan og endurbættan samning. Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, sagði í samtali við RÚV í maí, að mikilvægt væri að laun starfsfólks PCC á Bakka yrðu sambærileg því sem greitt væri í álverum og öðrum verksmiðjum. Það geti tekið tíma að byggja upp sambærileg kjör og í eldri og rótgrónari verksmiðjum.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi