Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýr nágranni í Bryggjuhverfinu er landselur

22.01.2020 - 15:32
Mynd: Hjörtur Geir Björnsson / Aðsend mynd
Íbúar í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi í Reykjavík hafa undanfarna daga fylgst með landsel sem heimsækir hverfið reglulega og kemur sér makindalega fyrir á bryggjusporðinum.

Hjörtur Geir Björnsson, íbúi í Bryggjuhverfinu, tók meðfylgjandi drónamyndir af selnum sem virðist ekki kippa sér mikið upp við hávaðann sem fylgir flygildinu.

Selir hafa notið friðhelgi á strandsvæðum og við árósa í Reykjavík síðan í maí í fyrra þegar umhverfis- og heilbrigðisráð Reykjavíkurborgar samþykkti tillögu þess efnis. Samhliða því ályktaði Reykjavíkurborg að allri veiði á bæði landsel og útsel, selategundunum tveimur sem lifa við strendur Íslands, verði hætt innan lögsögu borgarinnar.

Bæði landselur og útselur eru á válista yfir dýr í útrýmingarhættu og dýrunum hefur fækkað mikið á undanförnum árum. Selir hafa verið veiddir hér á landi allt frá landnámi. Súrsaðir selshreifar þóttu víða mikið lostæti og selspiks og selkjöts var neytt.

Reglubundin talning Hafrannsóknarstofnunar á stofnstærð landsela við strendur Íslands sýnir að stofninn hefur minnkað úr ríflega 33.000 dýrum árið 1980 í minna en 8.000 dýr árið 2016.