Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Nýr Magni skráður í Kingstown fyrst um sinn

03.03.2020 - 10:52
Mynd: RÚV / RÚV
Magni, nýr dráttarbátur Faxaflóahafna, kom til hafnar í Reykjavík fyrir helgi. Báturinn er 32 metra langur og 12 metra breiður, smíðaður í Víetnam. Samgöngustofa er að yfirfara Magna áður en hann verður tekinn í notkun.

Skipið enn í eigu Hollendinga

Það vakti athygli að Magna er siglt undir flaggi Saint Vincent eyja og merktur höfuðborg landsins, Kingstown. Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxahlóðahöfnum, segir að það eigi sér eðlilegar skýringar. 

„Skipið er enn eigu Damen Shipyards í Hollandi sem smíðaði það í Víetnam. Þeir sigla skipinu undir þessu flaggi en eftir að það verður afhent fær það að sjálfsögðu íslenskt flagg. Ég veit samt ekkert af hverju þeir velja Saint Vincent eyjar, “ segir Gísli. 

Fá skipið eftir nokkra daga

Það tekur nokkra daga að skrá Magna hér á landi og fá það afhent. „Samgöngustofa og Fjarskiptastofnun eru að fara yfir skipið í þessum töluðum orðum. Þetta ætti ekki að taka marga daga,“ segir Gísli. 

Togkraftur nýja Magna er 85 tonn áfram og 84 aftur á bak en það er samanlagður togkraftur allra núverandi dráttarbáta Faxaflóahafna sem eru fjórir talsins.