Nýr leikskóli vígður á Þórshöfn

Mynd með færslu
 Mynd: Heimasíða Langanesbyggðar - RÚV

Nýr leikskóli vígður á Þórshöfn

14.10.2019 - 12:12

Höfundar

Í seinustu viku var tekinn í notkun nýr leikskóli á Þórshöfn á Langanesi. Nýja skólahúsið kemur í stað tveggja eldri húsa sem skólinn var starfræktur í. Eldri deild skólans var í íbúðarhúsi í næsta nágrenni við nýja húsið en yngri deildin í húsi sem að mestu leyti var rifið og hið nýja er byggt á grunni þess.

Að lokinni húsblessun nýs sóknarprests, Jarþrúðar Árnadóttur, klipptu tveir reyndustu leikskólakennararnir og þrjú leikskólabarnnanna á borða og þar með var nýja húsið formlega tekið í notkun. Gamli leikskólinn var tekinn í notkun fyrir 36 árum, í október 1983. Í þá daga höfðu börnin með sér nesti að heiman, þar sem enginn matur var þá framreiddur í skólanum.

Bygging skólans var afar umdeild og var ekki einhugur um hvar hann ætti að standa. Á sínum tíma var ákveðið að byggja nýjan leikskóla við hlið grunnskólans á Þórshöfn en meirihluti sveitarstjórnar ákvað hins vegar að byggt skyldi á lóð gamla leikskólans. 

Kostnaður við bygginguna er sagður vera um 300 milljónir króna. Í ávarpi sínu við vígslu leikskólans lýsti leikskólastjórinn yfir ánægju sinni með húsnæðið. 

„Gott leikskólahúsnæði er mjög mikilvægt af mörgum ástæðum, hér erum við (börn og kennarar) allt að átta og hálfan tíma á dag eða 170 klukkutíma á mánuði. Okkar markmið er og á alltaf að vera að öllum líði vel í leikskólanum. Við þurfum að hafa góða  kennara og starfsfólk sem vinnur sína vinnu af fagmennsku, heilindum og gleði en við  höfum verið svo lánsöm að hafa haft það og vil ég þakka öllum sem hafa unnið frábært starf við mjög erfiðar aðstæður síðustu ár og jafnvel áratugi.“