Nýr leigjandi fundinn að Sigurhæðum

24.01.2020 - 15:48
Mynd með færslu
 Mynd: Svavar Alfreð Jónsson
Valið hefur verið úr þeim fjórum umsækjendum sem vildu taka Sigurhæðir á Akureyri á leigu. Nýr leigjandi ætlar að tvinna saman menningarstarf og atvinnulíf.

Stjórn Akureyrarstofu samþykkti á fundi í gær að ganga til viðræðna við Hótel Akureyri um leigu á Sigurhæðum, húsi Matthíasar Jochumssonar. 

Tvær af fjórum umsóknum voru teknar til skoðunar. Þórgnýr Dýrfjörð, framkvæmdastjóri Akureyrarstofu, segir þær hafi báðar verið mjög góðar en ákaflega ólíkar. Hann vonast til þess að drög að samningi geti legið fyrir innan tveggja vikna.

Daníel Smárason, framkvæmdastjóri Hótels Akureyrar, segist vilja tvinna menningarlega starfsemi á svæðinu saman við atvinnulífið. Hugmyndin sé að nýta húsið undir fundi en líka sem nokkurs konar félagsþjónustu í hverfinu. Vilji hópar standa fyrir uppákomum og viðburðum standi húsið þeim opið. Þá geti fólk sem vantar vinnurými leigt aðgang að húsinu. 

Spenntur fyrir komandi tímum

Þá væri gaman að reyna, í samstarfi við önnur félög og fyrirtæki, að stuðla að atvinnusköpun á svæðinu og bjóða húsnæðið og þjónustu hótelsins fram sem einhvers konar styrk til ákveðinna verkefna.

Daníel er spenntur fyrir því að sníða starfsemina að húsinu sem er lítið og persónulegt. Það bjóði ekki upp á mikinn fjölda en sé skemmtilegt. Daníel finnst mjög jákvætt hvað Akureyringar sýna húsinu mikinn áhuga og væntumþykju og er bjartsýnn á að samningar náist.

Aðgengið barn síns tíma

Akureyrarbær hugðist selja Sigurhæðir og var ein af ástæðunum fyrir því sú að aðgengi að húsinu telst ekki fullnægjandi fyrir hreyfihamlaða. Daníel segir að aðgengismálin séu ákveðin áskorun og húsið sé barns síns tíma í þeim efnum. Það sé þó ákveðinn útgangspunktur að ekki sé gerð krafa um að farið verði í framkvæmdir. Það verði því hægt að þjónusta ákveðinn hóp en húsið verði því miður seint aðgengilegt öllum.