Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýr landnemi á Íslandi

23.09.2019 - 17:00
Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson / Skarphéðinn G. Þórisson
Það þykir ekki ólíklegt að grátrönur setjist að á Íslandi. Þær hafa komið upp ungum hér. Í haust sáust fjórir fullorðnir fuglar á Austurlandi en þeir voru ekki með unga.

Stórir fuglar

Grátrönur, Common Crane Grus grus, eru nokkuð stórar. Fullvaxnar eru þær 100 til 130 sentimetrar á stærð. Vænghafið getur verið alllt að 240 sentimetrar. Trana getur vegið allt að sex kíló. Þær eru með háværari fuglum og getur hljóð frá þeim borist um langan veg. Frá 1968 eru heimildir um að þær hafi verið að flækjast hingað til lands og það hefur sést til þeirra víðsvegar um landið. En hvað rekur grátrönur til Íslands? Skarphéðinn G. Þórisson, hreindýrasérfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands, segir að fuglar flækist oft hingað vegna sterkra vinda sem þeir lenda í. Trönurnar komi kannski af öðrum ástæðum.

„Það er kannski eðli fugla meðan þeir eru ókynþroska að kanna ný lönd. Þannig að ég reika með að þetta sé liður í því,“ segir Skarphéðinn.

Vona að þær setjist hér að

Grátrönurnar verða kynþroska á fjórða ári, eða byrja þá fyrst að fjölga sér. Til að byrja með sáust stöku fuglar hér en nú er vitneskja um að grátrönur hafi verpt hér og komið upp ungum. Skarphéðinn segir að 2012 hafi grátrönuungi sést á Héraðssandi fyrir austan sem var í fyrsta sinn sem staðfest var að trönur hefðu verpt hér. Par kom á sömu slóðir 2013 og þá sást einn ungi. En eru þetta sömu fuglarnir sem koma aftur og aftur?

„Já, ég held að það sé nokkuð öruggt að fuglarnir sem sáust 2012 séu að koma aftur til landsins. Það er þekkt hjá farfuglum að þeir koma á vorin og setjast að á svipuðum slóðum sem þeir dvöldu árið áður,“ segir Skarphéðinn sem vonast til þess að þeir ungar sem alist hafi upp á Héraðssandi snúi aftur og að þeir dragi með sér aðra fugla. En er líklegt að þeir setjist hér að? Hann bendir á að þó að sést hafi til þeirra hafi þeir ekki alltaf verið með unga.

„Á meðan þetta er bara eitt par sem kannski verður af og til þá er þetta ekki orðið fast í hendi. En við vonumst til að þeim fjölgi og þeir setjist þarna að,“ segir Skarphéðinn.

Mynd með færslu
Tvær grátrönur fyrir austan Mynd: Skarphéðinn G. Þórisson.

4 fuglar í haust

Grátrönur helga sér stórt svæði þegar þær verpa. Þær eru styggar og erfiðlega hefur gengið að sjá til þeirra. Trönur fella fjaðrir og áhuginn nú beinist að því að komast þá að þeim og merkja þær, jafnvel með senditæki. Skarphéðinn segir ekki ólíklegt að trönurnar fari héðan til Spánar eða norðurhluta Afríku. Trönurnar sáust í vor og sumar. Í haust sást til fjögurra fullorðinna fugla sem væntanlega voru að undirbúa sig fyrir flugið út.

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV